Íslandsbankaskýrslan frestast enn

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir nú gert ráð fyrir Íslandsbankaskýrslunni …
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir nú gert ráð fyrir Íslandsbankaskýrslunni fyrir mánaðarlok. Samsett mynd

Stefnt er að því að skila skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir mánaðamót, en upphaflega átti að skila skýrslunni í sumar, nánar tiltekið í júní. Hefur útgáfu hennar ítrekað seinkað undanfarið.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir í skriflegu svari til mbl.is, við fyrirspurn um hvort útgáfudagur skýrslunnar liggi fyrir, að svo sé ekki.

Hann staðfestir aftur á móti að enn sé stefnt á að skila skýrslunni til þingforseta fyrir lok mánaðarins.

Upphafleg áætlun miðaðist við að skýrslan kæmi út fyrir lok júní en  sú áætl­un miðaðist við það að öll gögn lægju fyr­ir í mál­inu, en svo reynd­ist ekki vera.

Fyrir lok ágúst

Guðmund­ur sagði í viðtali við mbl.is í lok júní að skýrsl­unni myndi seinka en hann væri bjart­sýnn á að tæk­ist að skila skýrsl­unni til Alþing­is fyr­ir versl­un­ar­manna­helg­ina.

Um miðjan ágúst sagði Guðmundur svo að skýrslunnar væri að vænta fyrir lok ágúst. Enn tafðist útgáfan og í byrjun september sagði Guðmundur við Vísi að skýrslan væri á lokametrunum og að búast mætti við henni á næstu dögum.

Sem fyrr segir er nú búist við að skýrslan komi út fyrir lok mánaðarins, en almennt hefur ríkisendurskoðun birt skýrslur sínar sama dag og þær eru kynntar stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert