„Það er umhugsunarefni að þegar mál er komið inn í kerfið þá er í rauninni ekki hægt að losa það út úr kerfinu, nema á mjög löngum tíma og með mjög miklum tilkostnaði,“ segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Icelandic Seafood, í samtali við mbl.is.
Hæstiréttur staðfesti í gær að Bjarna hefði tvívegis verið refsað fyrir sama brot. Málsmeðferðin hefur staðið yfir í tæpan áratug. Bjarna var upphaflega gert að borga 36 milljónir í sekt fyrir að hafa ekki staðið skil á rúmum 20 milljónum í fjármagnstekjur árin 2007-2009. Síðar var hann dæmdur í átta mánaða skilorðbundið fangelsi fyrir sama brot.
„Það voru komin dómafordæmi sem sýndu fram á að það væri ekki hægt að bíða í röðum með að refsa fyrir sömu mistökin. Þegar að það mál var frágengið við Skattinn sem laut að mínum mistökum að þá fannst mér það einsýnt að það væru málalokin en dómskerfið var ekki sammála og því þurfti að fara þennan feril.“
„Það er að segja í gegnum bæði dómstigin 2013 og 2014, Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) 2019, Endurupptökudóminn í janúar og svo Hæstarétt núna í september,“ segir Bjarni og vísar í úrskurð MDE frá árinu 2017, í hliðstæðu máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn ríkinu þar sem MDE dæmdi ríkið til þess að greiða þeim miskabætur fyrir að hafa refsað þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Bjarni segist hafa búist við því að dómur gærdagsins myndi falla honum í vil.
„En maður veit aldrei þegar dómskerfið er annars vegar, hvaða vigt er lögð á hvaða málsástæður. Það er alltaf óvissa í því.“