Níu slasaðir í níu slysum

Þó nokkrir fengu byltur á rafmagnshlaupahjólum í síðustu viku og …
Þó nokkrir fengu byltur á rafmagnshlaupahjólum í síðustu viku og kom hvort tveggja ölvun og hjálmleysi við sögu. Lögregla biður vegfarendur að gæta að sér og virða lagabókstafinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu vegfarendur slösuðust í jafn mörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku eftir því sem fram kemur í tölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp sama tímabil, dagana 4. til 10. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 4. september. Klukkan 21.19 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Fiskislóð. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Klukkan 11.13 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Skógarvegi. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þá voru þrjú umferðarslys tilkynnt mánudaginn 5. september. Klukkan 14.09 var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gangbraut á Suðurlandsbraut við Hilton Reykjavík Nordica. Ökumaðurinn fór af vettvangi án þess að huga að þeim sem ekið var á, en fannst síðar og var miður sín yfir atvikinu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Ekki með öryggishjálm

Klukkan 15.12 var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Bitruháls og Bæjarháls. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Bitruháls inn á framhjáhlaup í hægri beygju vestur Bæjarháls og stöðvuð þar við biðskyldu að sögn ökumannsins. Er hann ók af stað á ný ók hjólreiðamaður á rafmagnshlaupahjóli austur gangstétt við Bæjarháls inn á framhjáhlaupið svo árekstur varð.

Á vettvangi er talsverður trjágróður við gatnamótin sem skyggir á sýn ökumanna frá biðskyldu. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Klukkan 16.22 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á hjólastíg við Nauthólsveg. Var hann fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 6. september klukkan 1.44 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Gunnarsbraut við Flókagötu. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður og ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Vegfarendur fari varlega og virði lög

Miðvikudaginn 7. september klukkan 15.35 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Suðurgötu í Hafnarfirði. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 8. september klukkan 15.26 var bifreið ekið austur Miklubraut, á milli Stigahlíðar og Kringlumýrarbrautar, og aftan á aðra bifreið sem hafði stöðvað vegna umferðar fram undan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 9. september klukkan 19.19 féllu hjólreiðamaður og farþegi af rafmagnshlaupahjóli á gangstétt við Rauðarárstíg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Segir lögregla enn sem áður ástæðu til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert