Ragnar býður sig fram til forseta ASÍ

Ragnar Þór Ingólfsson vill verða næsti forseti ASÍ
Ragnar Þór Ingólfsson vill verða næsti forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ætlar að bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins sem fer fram í lok október. Þetta staðfestir Ragnar í samtali við mbl.is. Hann tilkynnti stjórn VR um ákvörðun sína í gærkvöldi og starfsfólki í morgun.

Ef hann nær kjöri stígur hann til hliðar sem starfandi formaður VR en mun þó, með stuðningi stjórnar og samninganefndar, leiða kjaraviðræður félagsins þangað til í mars á næsta ári, en þá verður kosið um nýja stjórn VR.

Nái hann kjöri segir hann markmiðið ver að sameina og styrkja sambandið og gera það að því afli sem því var ætlað að vera.

Skiptir miklu máli að Kristján sé 1. varaforseti

Ragnar hefur verið mjög gagnrýninn á forystu ASÍ og Drífu Snædal, fyrrverandi forseta sambandsins. Í samtali við mbl.is í febrúar á þessu ári sagði hann eitraðan kúltúr þrífast innan ASÍ sem aldrei væri hægt að losna við.

Spurður hvernig hann ætli uppræta þennan kúltúr, segir Ragnar að vel hafi gengið að ná hópnum innan VR saman sem þó hafi oft verið sundurleitur. 

„Ég er búinn að kanna jarðveginn, hvort fólk sé tilbúið að gera atlögu að því að styrka sambandið og efla með annarri aðferðarfræði en hefur verið gert og þar skiptir langmestu máli sú ákvörðun Kristjáns að gefa kost á sér í fyrsta varaforseta,“ segir Ragnar og á þar við Kristján Þórð Snæbjarnarson, formann Rafiðnaðarsambands Íslands og starfandi forseta ASÍ. 

Tekur væntanlega á sig launalækkun

Ragnar telur að lykilöfl innan sambandsins séu sammála um að gera þurfi breytingar. Hann kannaði stuðning við framboð sitt innan aðildarfélaga ASÍ áður en hann tók ákvörðun um framboð en segist þetta þó ekki snúast um sig sem persónu.

„Ég held að það sé breiður stuðningur við að slíðra sverðin og efla sambandið. Það verður svo að koma í ljós hvort ég hef stuðning til þess.“

Nái Ragnar kjöri sem forseti ASÍ mun hann væntanlega taka á sig töluverða launalækkun ef marka má upplýsingar úr álagningarskrá Ríkisskattstjóra sem lögð var fram í ágúst. Sem formaður VR var Ragnar með 1.755.366 í tekjur á mánuði á síðasta ári en Drífa Snædal, þáverandi forseti ASÍ með 1.155.242 krónur.

Spurður hvort hann sætti sig við slíka launalækkun segir Ragnar þetta ekki snúast um sporslur eða laun, aðalmálið sé að verkalýðshreyfingin komið sameinuð að borðinu í komandi kjaraviðræðum

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert