Reykjavíkurborg hefur ákveðið að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóðar nr. 19 við Klapparstíg. Þar með sér væntanlega fyrir endann á áralöngum deilum um uppbyggingu á þessari verðmætu lóð á horni Klapparstígs og Veghúsastígs.
Ákvörðunin var tekin á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í síðustu viku.
Afar skiptar skoðanir eru á þessari niðurstöðu og er Guðjón Friðriksson sagnfræðingur einn þeirra sem mótfallnir eru niðurrifi hússins. „Mér er sárt um þetta því þetta er eitt af þessum fallegu gömlu húsum í bænum og þessi gata er líka afskaplega vinaleg,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.
Hann segir dæmi um vel heppnaðar endurbætur á gömlum húsum sem hafa verið endurbyggð í sömu mynd og þannig sögunni viðhaldið.
Mikil líkindi séu með húsinu og húsi við Vörðustíg í Hafnarfirði sem þyki afar vel uppgert.
„Veghús er eitt af þessum húsum sem búa yfir mikilli sögu enda er heil gata í gömlu Reykjavík kennd við það. Bærinn Veghús var kominn þarna um 1840 og vafalaust nefndur eftir alfaravegi Reykvíkinga sem lá í gegnum Skuggahverfi inn í Þvottalaugar áður en Laugavegur kom,“ segir Guðjón.
„Mér finnst að það verði – þegar það er um að ræða svona gömul hús, og þá sérstaklega svona falleg gömul hús, að það eigi að varðveita þau á sínum stað. Þá er einnig ansi lítið eftir af hinu gamla Skuggahverfi en það er búið að byggja gríðarlega mikið af stórhýsum og finnst mér mikilvægt að eitthvað sé varðveitt af þessu eldra,“ segir hann jafnframt.