„Viðhorfið innan lögreglunnar virðist almennt séð vera þannig að þetta skipti ekki máli. Bæði gagnvart hjólreiðamönnum sem fyrirbæri og umferðaröryggi fyrir aðra en ökumenn ökutækja.“ Þetta segir Birgir Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda, um afstöðu lögreglunnar gagnvart öryggi hjólreiðafólks.
Birgir vísar þar til atburðar sem átti sér stað í byrjun ágúst þar sem ökumaður tók fram úr 13 hjólreiðamönnum á innan við mínútu við akstur í Garðabænum. Ökumaðurinn birti síðar myndskeiði af akstrinum inn á Facebook-síðunni Íslensk bílamyndbönd.
Birgir bendir á að í myndskeiðinu sést að ökumaðurinn hafi virt að vettugi reglu umgerðarlaga sem segir til um 1,5 metra lágmarksbil á milli ökutækis og reiðhjóls við framúrakstur.
„Hann er aldrei með nóg millibil. Það er ástæða fyrir því að bilið sé einn og hálfur metri. Ef að hjólreiðarmaður dettur á hliðina endar höfuðið á honum undir bílnum ef bilið er minna en þetta,“ segir Birgir og bendir á að hjólahjálmur kemur ekki að neinu gagni ef svo ber undir.
Birgir kærði málið til lögreglu stuttu eftir að hann sá myndskeiðið. Tveimur vikum síðar fékk hann svar frá lögreglu þar sem kom fram að málið væri fellt niður og rannsókn lokið. Í svari lögreglu var tekið fram að ef ný sakargögn kæmu fram varðandi málið væri unnt að taka rannsóknina upp að nýju.
Að mati Birgis er það skrítið að lögreglan styðjist ekki við myndskeiðið úr bílnum sem sönnunargagn í málinu. Hann bendir á að það er margoft gert þegar um umferðarslys er að ræða eða önnur brot á umferðarlögum.
„Í þessu tilviki er gerandinn sjálfur að taka upp myndskeiðið á áreiðanlegu upptökutæki, hann setur það meira að segja sjálfur á samfélagsmiðla. Við erum með eins góðan og skýran uppruna gagns og hægt er og þar að auki sýnir myndbandið atburðarásina og brotið fullkomlega.“
Birgir segir að þetta sé alls ekki í fyrsta skiptið sem hann kærir svona atvik til lögreglunnar.
„Ég á fullt af myndbandsupptökum af svona atvikum en það hefur aldrei liðið minna en ár frá því að ég kæri og þangað til að lögreglan kemst að niðurstöðu í málinu.“
Hann bætir þá við að málin séu alltaf felld niður. Honum finnst því tortryggilegt að hann fái niðurstöðu úr þessu máli aðeins tveimur vikum eftir kæru og spyr sig hvort að lögreglan sé hætt að taka mark á kærum frá honum.
Hann segir þetta aðgerðarleysi vera skýrt merki um að afstaða lögreglunnar gagnvart svona málum sé að þau skipti ekki máli. „Viðhorf lögreglunnar er að við skiptum ekki máli.“
Birgir segir ökumanninn hafa haft einbeittan brotavilja þegar hann keyrði svo nálægt hjólreiðafólkinu og sakar hann um að hafa hæðst að fólkinu í færslunni sinni á Facebook.
„Hann er með mjög einbeittan brotavilja, fylgir honum mjög eftir og virðist vera stoltur af því. Ef maður skoðar önnur myndbönd frá honum inn á þessari síðu þá sér maður að hann er mjög oft að ögra fram aðstæður þar sem eitthvað gerist.“