Allir sveitarstjórnarfulltrúar í sveitarstjórn Múlaþings greiddu atkvæði með vanhæfi Þrastar Jónssonar, sveitarstjórnarfulltrúa Miðflokksins, nema hann sjálfur, til að fjalla um breytingu á aðalskipulagi varðandi leiðarval Fjarðarheiðargangna, á fundi sveitarstjórnarinnar á miðvikudag.
Vanhæfi Þrastar var því samþykkt með tíu atkvæðum gegn hans eina og ákallaði hann drottinn þegar honum þótti að sér vegið.
Þröstur lagði einnig fram bókun vegna málsins áður en hann vék af fundinum og Benedikt Waren kom inn í hans stað. Sagði hann meðal annars að bæði lögfræðiálit sveitarstjórnar væru loðin og tækju ekki afgerandi afstöðu til vanhæfis hans. Álit lögfræðings hans, sem væri öllum hnútum kunnugur í sveitarstjórnarmálum og löggjöf, væri hins vegar afgerandi á þá leið að hann væri ekki vanhæfur.
Fram kom á fundinum að vanhæfi Þrastar byggðist á skyldleika hans við landeiganda, en bróðir hans á jörð sem liggur að Egilstöðum. Þröstur sagðist þó engra hagsmuna hafa að gæta.
„Ég hef ekki erft svo mikið sem eitt frímerki af þessari jörð og aldrei haft nein fjárhagsleg tengsl við þessa jörð, hvorki nú né fyrr og verður ekki svo.“
Sagði Þröstur í bókuninni að atburðarás sem þessi ætti sér ekki fordæmi í sögu íslenskrar sveitarstjórnar.
„Hún lyktar af pólitísku ofbeldi og tilraun til að nota lög um vanhæfi sem stjórntæki, til að þagga niður skoðanir sem eru andstæðar skoðunum meirihlutans. Þegar meirihlutinn er kominn í rökþrot grípur hann til slíkra óyndisúrræða. Slíkt er alvarleg ógn við lýðræðið og málfrelsið í landinu sem er stjórnarskrárbundið.“
Krafðist hann þess að öll málsmeðferð og ákvarðanataka um skipulagstillöguna yrði frestað þar til endanleg niðurstaða um vanhæfi hans væri kominn frá innviðaráðuneyti og dómstólum, myndi hann leita til þeirra. En ábyrgð tafanna myndi hann vísa til þeirra sem greiddu atkvæði með vanhæfistillögunni.
Þröstur sagðist svo vona að guð gæfi sveitarstjórnarfólki visku til að kjósa rétt um vanhæfi hans.
Þegar vanhæfi hans lá fyrir ákallaði hann drottinn.
„Ég segi bara drottinn guð, forseti og aðrir fundarmenn.“
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, bað hann um að líkja sér ekki við drottinn guð og svaraði hann því til að hann hefði ekki gert það.
„Ég líkti þér ekki við hann. Ég var að biðla til hans, þar sem að mér er vegið,“ sagði Þröstur.
Tillaga umhverfis- og framkvæmdaráðs um að leiðarval Fjarðarheiðarganga um Fljótsdalshérað færi um þá leið sem Vegagerðin hefði kynnt og væri kölluð hin nýja suðurleið, var svo samþykkt með níu atkvæðum. Einn sat hjá og fulltrúi Miðflokksins greiddi atkvæði gegn tillögunni.