Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra.
Fram kemur í ályktun að með frumvarpinu sé almenningur einn gerður ábyrgur fyrir vaxandi verðbólgu og látinn gjalda fyrir stöðu ríkissjóðs vegna heimsfaraldurs.
„Stjórnvöld stefna að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og auka aðhald til að mæta vaxandi verðbólgu. Með frumvarpinu er sú leið valin að auka skatta og álögur á almenning, með verulegri hækkun krónutölugjalda og skattlagningu bifreiða ásamt því að fresta nauðsynlegum innviðafjárfestingum og auka niðurskurð í velferð og tilfærslu til heimila. Þetta er gert þrátt fyrir að heimilin verði um þessar mundir fyrir þungum áhrifum af vaxandi verðbólgu og hækkandi húsnæðiskostnaði,“ segir einnig í ályktuninni.
Fram kemur að ríkisstjórnin hafi val um að fara aðrar leiðir sem hlífa heimilum og færa byrðar á breiðustu bök samfélagsins. Til dæmis væri hægt að hækka veiðigjöld, taka upp komugjald í ferðaþjónustu og gera skattlagningu fjármagns réttlátari.
„Á það skal bent að almenningur er með frumvarpinu meðal annars að greiða fyrir þá lækkun fjármagnstekjuskatts og bankaskatts sem ákveðin var í miðjum heimsfaraldri,“ segir í ályktuninni þar sem gagnrýnt er að ekki sé ráðist í úrræði til að styðja við heimilin.
„Barnabætur verða óbreyttar milli ára og vaxtabótakerfið hefur nánast verið lagt niður. Gert er ráð fyrir lækkun á framlögum til uppbyggingar óhagnaðardrifinna leiguíbúða og ekki stendur til að efla húsnæðisbótakerfið. Þessar ákvarðanir eru þvert á þá stefnu sem stjórnvöld höfðu boðað til að bregðast við gríðarlegum húsnæðisskorti,“ segir þar.
„Þá bendir miðstjórn á að með gamaldags skattheimtu og auknum álögum á almenning verður fjárlagafrumvarpið beinlínis til þess að kynda undir verðbólgu með vísitöluhækkunum. Svo mótsagnakennd stefnumörkun vekur furðu um leið og það er undrunarefni að stjórnvöld kunni engin ráð önnur en að seilast eina ferðina enn í vasa almennings þegar ríkissjóð skortir fjármagn.“