Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang vegna alvarlegs umferðarslyss á Snæfellsnesvegi norður af Borgarnesi um klukkan 15 í dag.
„Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út að beiðni lögreglunnar í Borgarnesi vegna alvarlegs umferðarslyss í dag,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi LHG, í samtali við mbl.is. Önnur þyrlan var stödd í Reykjavík og áhöfnin á flugvellinum og gat því brugðist skjótt við að sögn Ásgeirs.
„Hin var á Akureyri og var nýbúin að flytja veikan skipverja í land og flaug þaðan í útkallið. Gert var ráð fyrir að flytja þyrfti allt að þrjá á sjúkrahús í Reykjavík,“ segir Ásgeir enn fremur.
Uppfært klukkan 17:23
Einn var fluttur með þyrlu á Landspítalann að sögn Ásgeirs Erlendssonar og hin þyrlan send í önnur útköll, það fyrra að sækja göngumann í sjálfheldu í fjalllendi við Hofsós.