Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra, er látinn, 84 ára að aldri.
Ragnar fæddist í Reykjavík 8. júlí 1938. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Arnalds, útgefandi og stórkaupmaður, og Guðrún Jónsdóttir Laxdal kaupkona.
Ragnar lauk stúdentsprófi frá MR árið 1958. Hann stundaði nám í bókmenntum og heimspeki við sænska háskóla 1959-1961 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1968.
Hann var kennari við Gagnfræðaskólann í Flensborg í Hafnarfirði 1958-1959, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í Reykjavík 1967-1969 og við Gagnfræðaskólann við Laugalæk 1969-1970. Hann var settur skólastjóri við barna- og unglingaskólann í Varmahlíð í Skagafirði 1970-1972.
Ragnar var landskjörinn þingmaður 1963-1967 fyrir Alþýðubandalagið á Norðurlandi vestra og var alþingismaður Norðurlands vestra 1971-1999 (Alþýðubandalagið, Samfylkingin). Hann var menntamála- og samgönguráðherra 1978-1979 og fjármálaráðherra 1980-1983. Þá var hann fyrsti varaforseti Alþingis 1995-1999.
Ragnar var formaður Alþýðubandalagsins 1968-1977. Hann sat í fjölda nefnda og stjórna, var meðal annars formaður Félags fyrrverandi alþingismanna 2003-2010 og sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1998-2013. Þá var hann formaður Heimssýnar 2002-2009.
Ragnar var ritstjóri Frjálsrar þjóðar 1960, Dagfara 1961-1962 og Nýrrar útsýnar 1969. Hann samdi leikrit, þar á meðal Uppreisn á Ísafirði sem Þjóðleikhúsið sýndi 1986 og Sveitasinfóníu sem Leikfélag Reykjavíkur setti upp 1988. Þá sendi hann frá sér skáldsögurnar Eldhuginn – sagan um Jörund, 2005, Drottning rís upp frá dauðum, 2010, og Keisarakokteilinn árið 2018. Hann skrifaði tvær æviminningabækur, Æskubrek á atómöld og Gandreið á geimöld sem komu út árin 2017 og 2018.
Eftrlifandi eiginkona Ragnars er Hallveig Thorlacius brúðuleikari. Dætur þeirra eru Guðrún og Helga.