Opnunarhátíð Fundar fólksins verður haldin í hátíðarsal Norræna hússins klukkan 11 í dag.
Þar mun Krakkaveldi segja frá því samfélagi sem börn vilja, auk þess sem Gunnar Helgason verður með pallborðsumræður þar sem hann ræðir við nokkra lestrarhesta um lestur og bókmenntir.
Hér má fylgjast með opnunarhátíðinni:
Gróska fös 16 sept FF from Norræna félagið on Vimeo.
Tilgangur Fundar fólksins er að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálafólks og frjálsra félagasamtaka, þar sem lýðræði og opin skoðanaskipti eru leiðarstefið. Fundur fólksins er sjálfstæð hátíð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum.
Á dagskrá hátíðarinnar í ár eru meðal annars viðburðir sem fjalla um áhrif barna og ungmenna á stefnumótun í loftslagsmálum, sjálfbær og örugg matvælakerfi, íbúalýðræði og starfsumhverfi almannaheillasamtaka, að því er kemur fram í tilkynningu.
Á morgun, laugardag, mun Bergið Headspace standa fyrir lokatónleikum Fundar fólksins frá kl. 16:30- 17:30 þar sem fram koma m.a. Stjórnin og Birnir.
Aðgangur er öllum opinn og ókeypis á alla viðburði.