Helsta ástæðan fyrir því að embætti ríkislögreglustjóra hefur hækkað viðbúnaðarstig á landamærum upp í hættustig er sú að búsetuúrræði fyrir flóttafólk hér á landi eru nánast fullnýtt. Bæði skammtímaúrræði og langtímaúrræði.
„Það er helsta vandamálið, hvernig við veitum fólki öruggt húsnæði,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
Eins og staðan er núna stendur ekki til að gera breytingar á landamæraeftirliti á Keflavíkurflugvelli eða móttöku fólks við landamærin.
„Það liggur allavega ekki fyrir að svo stöddu. Það er alltaf verið að vinna að þægilegri tæknilegri úrlausnum sem hjálpa til við að vinna hraðar úr málum, en að mestu er þetta að styrkja þessar stoðir sem við erum þegar búin að byggja upp,“ segir Gunnar.
Hættustigi á landamærum var lýst yfir í mars á þessu ári og tókst þá vel að bregðast við fjölgun á vinnslu umsókna fólks alþjóðlega vernd hér á landi. Í maí var viðbúnaðarstig aftur fært niður á óvissustig.
Mikið viðvarandi og aukið álag á viðbragðsaðilum sem koma að móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd kallar nú á aukna aðstoð og styrkingu kerfisins. Með því að virkja viðbragðsáætlun aftur á hættustig verður lagður aukinn þungi í þessa vinnu.
Þannig verði tryggt að hægt verði að kalla viðbragðsaðila að borðinu með skjótum hætti komi til þess að opna þurfi fjöldahjálparstöð til að tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd öruggt húsaskjól.
„Að við getum kallað saman þá aðila sem þurfa að vera í hópnum sem ákveður hver viðbrögðin eru. Hvað það þýðir nákvæmlega að opna fjöldahjálparmiðstöð,“ segir Gunnar.
Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi á þessu ári er fordæmalaus, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra.
Síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst þann 24. febrúar hafa 1.646 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi, en alls hafa 2718 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi það sem af er árinu.
Næst stærsti hópurinn er frá Venesúela eða 537 einstaklingar og þriðji fjölmennasti hópurinn telur 119 einstaklinga sem hafa tengsl við Palestínu.