Landsréttur staðfesti á mánudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. september um að karlmanni, A, skyldi gert að sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni á grundvelli laga númer 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili en áður hafði A sætt nálgunarbanni með vægari skilyrðum frá 3. mars.
Skaut A málinu til Landsréttar með kæru sama dag og héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn og krafðist þess að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu yrði markaður skemmri tími og vegalengd. Gagnaðili hans í málinu krafðist hins vegar staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Atvik málsins eru meðal annars þau að lögregla var kölluð að heimili brotaþola 28. janúar vegna alvarlegra hótana eiginmanns í hennar garð. Var hún að sögn lögreglu í miklu uppnámi, grét og titraði á víxl og kvaðst hafa farið fram á skilnað við A sem meðal annars hefði vísað henni og ungum syni þeirra af heimilinu.
Kvað brotaþoli A hafa sagst ætla að „stúta henni“ og staðfesti dóttir brotaþola að A hefði haft í hótunum og verið ógnandi í fasi. Kvaðst brotaþoli óttast A og eins óttast um líf sitt og velferð.
Eftir að úrskurður héraðsdóms um fyrra nálgunarbannið lá fyrir reyndi A með ýmsum hætti að setja sig í samband við brotaþola samkvæmt upplýsingum lögreglu. Reyndi hann til dæmis ítrekað að hringja í hana og senda SMS-skeyti auk þess að fá barn í hverfinu til að setja bréf inn um bréfalúgu hennar.
Um háttsemi A sagði í úrskurði héraðsdóms: Með vísan til þess sem hér liggur fyrir og á grundvelli fyrirliggjandi rannsóknargagna lögreglu þá er fallist á það með sækjanda að varnaraðili teljist með framangreindri framgöngu sinni í öllu falli hafa ótvírætt og ítrekað raskað friði beiðanda og með hliðsjón af framangreindu er enn fremur fallist á það mat sækjanda að varnaraðili muni að öllum líkindum halda slíku áfram verði ekki gripið til þeirra ráðstafana sem lögin bjóða og krafist er af hálfu lögreglu.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að rökstuddur grunur liggi fyrir um að A hafi á tímabilinu 23. júní til og með 11. ágúst nú í sumar ítrekað brotið gegn nálgunarbanninu sem hann hefur sætt frá því í mars.
Tekur Landsréttur fram í úrskurði sínum að brot gegn nálgunarbanni geti samkvæmt almennum hegningarlögum varðað fangelsisrefsingu. Þá sé ósennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni eins og sakir standi. Að því fram komnu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, að því er fram kemur í úrskurði Landsréttar.