Þessa dagana taka tíu ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára þátt fyrir Íslands hönd í netöryggiskeppni Evrópu (ECSC) sem fram fer í Vínarborg í Austurríki. Um samevrópskt samstarfsverkefni er að ræða og eru 28 Evrópulönd sem etja kappi ásamt fimm gestaþjóðum en þátttaka Íslands er tiltölulega nýtilkomin.
„Reynslan sem þátttakendur öðlast er gríðarleg en markmið Evrópukeppnarinnar er að fá fleiri ungmenni til þess að íhuga netöryggi sem mögulegan starfsvettvang. Kosturinn við keppnina er meðal annars að öll reynslan sem fæst með þátttöku nýtist beint í starfi og þá sérstaklega í tæknistörfum. Þú nærð að keppa í alþjóðlegri keppni og hafa gaman af því en á sama tíma öðlastu reynslu og færni sem gerir þig að betri starfskrafti,“ segir Hjalti Magnússon, sem er í forsvari fyrir hópinn, í samtali við mbl.is.
Lið Íslands samanstendur af tíu ungmennum á aldrinum 16 til 25 ára sem hafa brennandi áhuga á netöryggismálum. Áskoranirnar eru miklar og verkefnin sem teymið þarf að leysa eru afar flókin og krefjast mikillar þekkingar á þessu sviði.
„Mikill skortur er á fólki í þessi störf en hópurinn sem hefur áhuga á netöryggi og málum tengdum því er ekki stór en afar áhugasamur. Þau hafa sýnt ótrúlega færni á þessu sviði en einungis einn af keppendum Íslands hefur unnið í þessum geira, hinir hafa lært þetta upp á eigin spýtur og koma í raun fullmótaðir inn í keppnina til okkar,“ bætir Hjalti við.