Steinar Snorrason varðstjóri hefur látið af störfum á lögreglustöðinni á Þórshöfn á Langanesi eftir áralangt starf þar. Frá þessu greinir lögreglan á Norðurlandi eystra á Facebook-síðu sinni þar sem þess er enn fremur getið að Steinar hafi staðið vaktina einn síðustu ár og skilað sínu með sóma á víðfeðmu vaktsvæði.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri færði Steinari blómvönd og þakkaði honum vel unnin störf og er eftirsjá sögð að honum hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Eftirmenn Steinars eru parið Aron Guðmundsson og Dagný Karlsdóttir sem ráðin hafa verið til starfa á starfsstöðinni á Þórshöfn. „Þau eru bæði fagmenntaðir lögreglumenn og hafa nú þegar komið sér fyrir á Þórshöfn og hafið þar störf. Við erum afar ánægð með að geta nú mannað tvær stöður lögreglumanna á Þórshöfn með þessu úrvalsfólki og óskum íbúum svæðisins til hamingju. Með þessari viðbót í löggæslunni eykst þjónusta og öryggi á þessu víðfeðma varðsvæði. Við óskum Aroni og Dagnýju til hamingju með stöðurnar og farsældar í sínum störfum,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar.