Rannsókn miðar vel á hnífstungu við Sprengisand

Búið er að yfirheyra alla sem koma að hnífstungumálinu sem …
Búið er að yfirheyra alla sem koma að hnífstungumálinu sem átti sér stað á fimmtudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að rannsókn miði vel á stunguárásinni við Sprengisand sem átti sér stað á fimmtudaginn.

Sagt var frá því í gær að 18 ára maður hafi verið stunginn þrisvar sinnum með hníf í undirgöngum við Sprengisand í Reykjavík.

„Það er búið að ræða við alla sem geta veitt einhverjar upplýsingar í þessu,“ segir Margeir.

Hann segist ekki geta gefið neinar upplýsingar um atburðarásina fyrr en öll gögn eru komin í málinu.

Árásarmaðurinn síbrotamaður

Árásármaðurinn hefur verið yfirheyrður en hann var úrskurðaður í síbrotagæslu til 12. október. 

„Það er farið í þetta þegar við þurfum að stoppa menn sem eru búnir að vera á fullu í afbrotum, þá er þessu beitt,“ segir Margeir um síbrotagæsluna.

Margeir gat ekki sagt til um líðan mannsins sem ráðist var á nema að hann væri ekki talinn vera í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert