Samtökin Móðurmál styrkt

Óttarr Ólafur Proppé, sem leiðir stýrihópa um málefni barna á …
Óttarr Ólafur Proppé, sem leiðir stýrihópa um málefni barna á flótta og barna af erlendum uppruna, stjórn Móðurmáls og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur styrkt samtökin Móðurmál um 15 milljónir króna og er styrkurinn liður í aðgerðum stjórnvalda vegna barna á flótta og af erlendum uppruna.

Kemur þetta fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en Móðurmál eru samtök um tvítyngi sem kenna móðurmál önnur en íslensku og styðja við og taka þátt í rannsóknum á virku tvítyngi í samfélaginu. Hafa samtökin boðið upp á kennslu fyrir fjöltyngd börn á yfir 20 tungumálum allar götur síðan 1994.

Segir enn fremur af því í tilkynningunni að fyrr í vikunni hafi mennta- og barnamálaráðuneytið lokið úthlutun styrkja til sveitarfélaga vegna móttöku barna á flótta en þeir voru veittir tímabundið til að styðja við fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði fyrir börnin auk undirbúning skólastarfs haustsins.

Ánægjulegt að sjá viðbrögð sveitarfélaga

Er eftirfarandi haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í tilkynningu Stjórnarráðsins:

„Hugmyndin með stuðningnum var ekki eingöngu að gera sveitarfélögum kleift að taka á móti auknum fjölda barna á flótta heldur einnig að stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu og brúa bilið þar til þau komast í skóla. Það var ánægjulegt að sjá viðbrögð sveitarfélaganna sem buðu börnunum upp á fjölbreytta dagskrá í sumar. Leggjumst öll á eitt við að tryggja farsæld þessara barna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert