Skýrslan á enn eftir að fara í umsagnarferli

Skýrslan snýr að sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka.
Skýrslan snýr að sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka er enn til vinnslu hjá embættinu og ekki enn komin í umsagnarferli, en það ferli þarf að klárast áður en skýrslan er gefin út.

Í gær kom fram að nú værir stefnt að því að skýrslan yrði kláruð fyrir næstu mánaðamót, en hún hefur ítrekað tafist frá því að upphaflega var gert ráð fyrir að hún kæmi út í júní.

Samkvæmt svörum Ríkisendurskoðunar við fyrirspurn mbl.is er embættið enn að klára skýrsluna fyrir rýni innanhúss, en það er lokaskrefið í úttekt af þessu tagi fyrir umsagnarferli, en þar fá bæði fjármálaráðuneytið og Bankasýsla ríkisins skýrsluna til umsagnar.

Ekki sérstakar dagsetningar

Þegar umbeðnar umsagnir hafa svo skilað sér er skýrslan gefin út og umsagnirnar birtar sem hluti af lokaskýrslunni.

Í svarinu til mbl.is ítrekar Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi að hann vilji ekki nefna sérstakar dagsetningar hvað umsagnarferlið eða úrvinnslu þess varði, en að enn sé miðað að því að skila skýrslunni til þingforseta fyrir lok mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert