Sprengjusérfræðingar ríkislögreglustjóra voru kallaðir út vegna tilkynningar um torkennilegan hlut sem fannst á Ránargötu í Vesturbæ Reykjarvíkur á þriðja tímanum í dag.
„Það er tilkynnt um torkennilegan hlut sem var talið að væri einhvern veginn soðinn saman og mögulega væru blikkandi ljós á honum. Það fer ákveðið viðbragð í gang hjá okkur,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
„Við byrjum á því að loka ákveðnu svæði næst þessu þar sem tilkynningin er,“ segir Ásgeir og bætir við að kallað hafi verið til sprengjusérfræðings hjá ríkislögreglustjóra til að leiðbeina um næstu skref.
„Þeir komu og voru snöggir að finna út að þetta væri ekki eitthvað sem þurfti að óttast.“
Í ljós kom að um einhvers konar rafsígarettu var að ræða en um hálftíma eftir að Ásgeir fékk tilkynningu um hlutinn var búið að ljúka aðgerðum lögreglu.