Þurfa að skola burt ætandi efni eftir sprengjurnar

Mikill viðbúnaður var á Selfossi í gær þegar sprengja sem …
Mikill viðbúnaður var á Selfossi í gær þegar sprengja sem ekki hafði sprungið fannst á gatnamótum við Engjaveg og Tryggvagötu. mbl.is/Sigmundur

Brunavarnir Árnessýslu hafa þurft að nota „ansi mikið vatn“ til að skola nokkra vettvanga á Selfossi eftir heimatilbúnar sprengjur sem hafa sprungið með þeim afleiðingum að ætandi efni sest í jarðveginn eða liggur eftir á götum og gangstéttum. 

Efnið sem notað er við gerð sprengnanna getur reynst skaðlegt ef það kemst í snertingu við húð eða augu auk þess sem það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Þetta segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Viðbúnaður vegna sprengju á Selfossi.
Viðbúnaður vegna sprengju á Selfossi. mbl.is/Sigmundur

Lögreglan á Suðurlandi greindi frá því fyrr í vikunni að undanfarna daga hefði embættinu borist tilkynningar um sprengingar á Selfossi. Sprengjurnar eru heimatilbúnar og telur lögreglan fyrst og fremst unglinga á framhaldsskólaaldri vera að verki. 

Sérsveitin hefur verið kölluð á Selfoss tvisvar í vikunni vegna málsins. 

„Alvarlegar afleiðingar“

Í samtali við mbl.is í gær sagði Garðar Már Garðars­son aðalvarðstjóri að lögreglan hefði í nokkur skipti komið á vettvang til að taka upp leifar af sprengjum sem hafa sprungið. Að sögn Péturs hefur stundum þurft að skola vettvanga með „ansi miklu vatni til að núlla út sýrustigið á þeim ætandi vökva“ sem farið hefur niður.

„Ætandi efni, sýra eða basi, geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk sem að rekst í það. Það getur líka haft alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. En við skolum það bara með vatni en stundum eru notuð efni með þessu til að breyta sýrustiginu,“ segir Pétur og bætir við að leifar af sprengjum hafi m.a. fundist í nágrenni við skóla.

„Sem er óþægilegt auðvitað því þar eru kannski meiri líkur á að börn séu að veltast í grasinu og vesenast eitthvað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert