Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, sagði flokkinn eiga nóg af möguleikum inni, eins og „ávísun sem á bara eftir að kvitta upp á“, í opnunarræðu sinni á aðalfundi Pírata sem hófst í dag.
Flokkurinn fagnar í ár sínu tíu ára afmæli og var ræðan lituð af því.
„Sumarið 2012 frétti ég af því að Píratar væru að hittast í HR og skipuleggja byltingu, ég að sjálfsögðu mætti, enda mikill byltingarsinni,“ byrjaði Halldóra ræðu sína.
Þar hafi hún kynnst fólki uppfullu af ástríðu og von fyrir framtíðina með framsýnar og spennandi hugmyndir.
„Ég var umkringd fólki sem hafði upplifað mótlæti og óréttlæti á eigin skinni og brann fyrir samfélagsbreytingum en ekki í reiði, frekar með mikilli trú á því góða í fólki, því fallega.“ Þar hafi verið fólk sem vildi byggja upp frekar en að rífa niður, hún hafi orðið fyrir hughrifum.
„Við vorum öll núbbar og vissum ekkert hvað við vorum að gera. Nema Birgitta sem í minningunni var kletturinn í þessu ferðalagi,“ sagði Halldóra og bætti við að Smári McCarthy hafi einnig verið til halds og trausts.
Því næst nefndi Halldóra grunnstefnu Pírata og sagði hana hafa einkennt hreyfinguna frá upphafi.
„Grunnstefnan skilgreinir grundvallargildi flokksins á skýran og afdráttarlausan hátt sem ég tel að eigi engan sinn líka – og það sést í öllu sem við gerum.“
Sagði hún Pírata með grunnstefnu sína að leiðarljósi hafi „gjörbreytt umræðunni í mörgum málaflokkum“, á borð við „skaðaminnkun og afglæpavæðingu neysluskammta, skilyrðislausri grunnframfærslu, nýsköpun og rannsóknum, upplýsinga- og tjáningarfrelsi, vernd uppljóstrara og rannsóknarblaðamennsku, höfundarréttarmál og nýjan veruleika samhliða netvæðingu, gagnsæi í ríkisrekstri og lýðræði í öllum sínum myndum.“
Sagði hún þá að henni liði eins og Píratar ættu mikla möguleika inni, óútleysta.
„Það er einhver kynngimagnaður byltingarkraftur í okkur.“