Stjórn Flokks fólksins fundaði í dag um ásakanir þriggja kvenna sem skipuðu efstu sætin á lista flokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar á Akureyri. Til skoðunar er að fá utanaðkomandi aðila til að leysa málið.
„Það voru mjög efnislegar og innihaldsríkar samræður sem við áttum,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.
Fundurinn stóð yfir í þrjá tíma en ásamt stjórninni voru tveir faglegir ráðgjafar viðstaddir.
„Við höfum verið að velta ýmsu upp, þar á meðal að fá utanaðkomandi aðila til að taka utan um málið. Það er það sem við erum að skoða núna. En það var engin önnur ákvörðun tekin nema að reyna að sjá hvernig við gætum mögulega gert þetta þannig að hlutirnir gætu gengið þannig að allir væru þokkalega sáttir og gætu starfað saman,“ segir Inga.
Á fundinn voru Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Flokks fólksins á Akureyri, og Jón Hjaltason, sem skipaði þriðja sætið á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum, einnig boðaðir. Hvorugur þeirra mætti. Segir Inga oddvitann hafa sent stjórninni hugvekju sem voru „hálfgerð níðskrif“ fyrir fundinn. Aðspurð hvað hafi komið fram í henni vildi Inga ekki deila því.
Inga segir að fyrst hafi staðið til að stjórnin myndi fara norður og funda þar með fulltrúunum tveimur þar. Segir hún hópinn ekki hafa fengið flug norður í dag og því hafi verið ákveðið að halda fundinn í Reykjavík. Bendir hún á að stjórnin og ráðgjafarnir séu ellefu talsins en fulltrúarnir sem voru boðaðir séu tveir, því sé auðveldara fyrir þá að fá flug.
„Við vorum sannarlega tilbúin að taka vel á móti þeim og hlusta og fá þeirra sjónarmið. En við erum eiginlega sorgmæddust yfir því að þetta skuli vera að fara í þessar furðulegu skotgrafir sem að við höfum ekki tekið þátt í og ætlum ekki að gera, engan veginn, alls ekki,“ segir Inga.
Spurð hvort komi til greina að víkja mönnunum úr flokknum bendir Inga á að í samþykktum flokksins sé grein sem kveði á um að heimilt sé að svipta félagsmanni aðild að flokknum. Rifjar hún upp að í kringum Klaustursmálið árið 2018 hafi henni verið beitt.
„Það er alveg skýrt að þeir sem að vinna leynt og ljóst gegn hagsmunum flokksins og eru í raun að skaða okkur út á við og annað slíkt þá er það alveg deginum ljósara að þeir eru eiginlega sjálfir búnir að skrifa sig út. Þessir einstaklingar eru núna búnir að vera tilkynna það af og til að þeir séu að fara hætta. Ég veit ekki hvað það þýðir. Þeir hafa aldrei gefið það út sérstaklega en við erum hér með 252 pósta. Það eru endalausar skeytasendingar sem hafa verið að ganga yfir í sumar,“ segir Inga.
Aðspurð segir hún póstana vera á milli þeirra einstaklinga sem skipuðu fimm efstu sætin á listanum á Akureyri.
Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Flokks fólksins á Akureyri, sagði fyrir tveimur dögum að hann teldi ásakanir um kynferðislegt áreiti og óviðeigandi framkomu beinast að einhverjum öðrum innan Flokks fólksins en honum sjálfum og Jóni.
Staðfestir Inga að ásakanir um kynferðislegt áreiti eigi ekki við um þá tvo. Aðspurð segir hún um sé að ræða einstakling sem hafi verið neðar á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum.