Ný plata Heklu valin samtímaplata mánaðarins í The Guardian

Aðsend mynd

Það er ekki á hverjum degi sem íslenskur tónlistarmaður fær nýútgefna plötu sína kosna sem plötu mánaðarins, en það gerðist á föstudaginn þegar nýútgefin plata Heklu Magnúsdóttur, Xiuxiuejar, var valin samtímaplata mánaðarins af tónlistargagnrýnanda breska dagblaðsins, The Guardian. Platan er splunkuný, en hún kom út 9. september síðastliðinn hjá Phantom Limb í Bretlandi.

John Lewis skrifar í The Guardian að Hekla sé „hluti kynslóðar tónlistarmanna sem eru að endurheimta rafhljóðfærið theremin og gefa því sína eigin rödd.“ Hann bætir við að í laginu Silfurrofinn hljómi theremínið eins og spuni á himinstjörnusítar upp og niður harmónískan tónstiga í moll.

Blanda saman hljóðfærum sem líkt er við mannsröddina

Hekla segir í samtali við mbl.is að hún hafi heillast af rafhljóðfærinu theremin eftir að hún heyrði tónlist Klöru Rockmore líklega um 2007, en Rockmore var fiðluleikari frá Litháen sem varð fræg fyrir notkun rafhljóðfærisins eftir að hún fluttist til Bandaríkjanna á þriðja áratug síðustu aldar.

Aðsend mynd

„Ég heillaðist af dramatík hljóðfærisins, og hvað það er hægt að framkvæma með því. Hljóðfærið hljómar bæði eins og eitthvað eldgamalt og á sama tíma fútúrískt.“

Það er ekki hægt að neita dramatík hins angurvæga hljóðfæris theremin, en að hlusta á tónlist Heklu er eins og að fara inn í heim sem er kannski á annarri bylgjulengd, tilfinningalegri bylgjulend sem er bæði framandi og svolítið skelfileg en á sama tíma er eitthvað heillandi andrými sem kallar á hlustandann að rannsaka þessa hljóðveröld sem hún hefur skapað.

„Ég blanda saman selló og theremin, en það eru þau tvö hljóðfæri sem er oft líkt við mannsröddina. Svo blanda ég líka röddum ofan á og “layera” margar rásir af thereminum og selló svo það hljómi eins og kór.“

Tónleikar á næstunni

Hekla býr og starfar nú í Reykjavík, en yfir henni er samt einhver alþjóðlegur bragur, enda ólst hún upp í Barcelona á Spáni og hefur búið í öðrum fjölþjóða borgum Evrópu eins og í Berlín. Fyrsta breiðskífa hennar, Á, kom út árið 2018 líka hjá Phantom Limb útgáfunni í Bretlandi. Tveimur árum áður gaf hún út smáskífuna Hekla sem vann til Kraumsverðlaunanna. Áður hafði hún unnið með hljómsveitinni Bárujárn.

Á nýju plötunni leikur Hörður Bragason á orgel, Óttarr Proppé syngur og Arnljótur Sigurðsson og Sindri Freyr Steinsson leika á flautur. Hekla leikur sjálf á önnur hljóðfæri, en hún lærði á selló í æsku. Umslag plötunnar er hannað af Hafsteini Ársælssyni.

Hekla kemur fram á tónleikum í Queen Elizabeth Hall í Southbank Centre í Lundúnum 2. október næstkomandi og síðan tekur hún þátt í hinni árlegu tónlistarhátíð Doomcember hér á Íslandi í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert