Rannsókn sýni fram á slæma stöðu tvítyngdra barna

Höfundar rannsóknarinnar, Jóhanna T. Einarsdóttir, prófessor í talmeinafræði við Læknadeild …
Höfundar rannsóknarinnar, Jóhanna T. Einarsdóttir, prófessor í talmeinafræði við Læknadeild HÍ og á Menntavísindasviði, Iris Edda Nowenstein, MS í talmeinafræði frá HÍ og doktorsnemi í íslenskri málfræði, og Hjördís Hafsteinsdóttir talmeinafræðingur Kristinn Ingvarsson

Ný rannsókn talmeina- og málfræðinga bendir til þess að tvítyngd börn með íslensku sem annað mál læri takmarkaða íslensku í leikskólum. Höfundar rannsóknarinnar segja muninn meiri en þær hafi gert ráð fyrir og að niðurstaðan kalli á endurskoðun áherslna. 

Rannsóknin bendir til þess að tvítyngd börn séu með mun lakari málfærni en þau sem eru eintyngd, jafnvel þótt þau tvítyngdu fæðist á Íslandi. 

Gengur gegn viðhorfi um málfærni leikskólabarna

„Þetta er lítil rannsókn sem þyrfti að endurtaka um allt land, og niðurstöðurnar eru í raun í ákveðinni mótsögn við algengt viðhorf þar sem leikskólabörn eru alltaf talin fljót að tileinka sér nýtt mál í nýju málsamfélagi,“ er haft eftir Irisi Eddu Noweinstein, MS í talmeinafræði frá HÍ og doktorsnemia í íslenskri málfræði, einum höfundi rannsóknarinnar á vef Háskóla Íslands

Höfundarnir voru sammála um að niðurstöður rannsóknarinnar kalli á breytt viðhorf í málörvun tvítyngdra leikskólabarna. Þær segja nauðsynlegt að gera gangskör að eflingu íslenskukunnáttu tví- og fjöltyngdra barna á Íslandi.

92% myndu greinast með málþroskaröskun

Þátttakendur í rannsókninni voru 25 tvítyngd leikskólabörn af Suðurnesjunum. Þau fæddust öll á Íslandi og höfðu dvalið í leikskóla í nokkur ár. Þá voru foreldrar allra barnanna með sama móðurmál sem var talað heimafyrir sem var ekki íslenska. 

Af þessum 25 börnum féllu 23 þeirra undir skilgreiningu þess að vera með málþroskaröskun. 

„Við teljum reyndar ekki að börnin séu með málþroskaröskun heldur kunni þau ekki nægilega vel íslensku. Það er vel þekkt innan talmeinafræðinnar að það er sérstaklega erfitt að meta málþroskaröskun hjá tví- og fjöltyngdum börnum, bæði því hópurinn er mjög fjölbreyttur og flest mælitæki miða við eintyngd börn,“ er haft eftir höfundum rannsóknarinnar á vef Háskóla Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert