Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Árborg, segir að skerpt verði á öllum verkferlum innan skóla vegna þeirra sprengna sem hafi fundist í vikunni. Þar að auki verði skerpt á eftirliti við skólalóðir á morgnana.
Lögreglan á Suðurlandi greindi frá því á Facebook-síðu sinni fyrr í vikunni að tilkynningar hefðu borist embættisinu vegna sprengjugerðar. Þá þurftu nemendur að halda sig inni hluta fimmtudags vegna sprengju á gatnamótum Engjateigs og Tryggvagötu.
Skólastjórnendur funduðu í gær með fulltrúum sveitarfélagsins og ræddu næstu skref og viðbrögð vegna þessa máls sem skók bæinn í liðinni viku.
Að sögn Þorsteins verða skólalóðir í sveitarfélaginu teknar út á hverjum morgni áður en skólahald hefst og gengið úr skugga um að enga torkennilega hluti sé þar að finna. Þá verður sérstaklega mikið eftirlit í komandi viku.
„Það verður farið út á morgnana og gengið hringinn í kringum skólana og lóðin skönnuð ásamt næsta nágrenni. Það er verklag sem við ætlum að skerpa á,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is og tekur fram að almennt séu skólalóðir skoðaðar fyrir upphaf hvers dags.
Þótt síðastliðinn vika hafi verið sérlega annasöm hvað varðar sprengjur segir Þorsteinn það engin nýlunda að óvæntir hlutir finnist eða gerist á skólalóðum. Hann segir því ekki endilega standa til að gera sérstaka viðbragðsáætlun vegna sprengjugerðar:
„Þetta er svo sem ekki alveg nýtt í skólum að svona gerist. Við erum með áætlanir en við ætlum núna að skerpa á þessu. Ekki síst í ljósi þessarar reynslu,“ segir Þorsteinn.