Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vill að Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar verði annar varaforseti Alþýðusambandsins, ASÍ.
Þetta sagði Ragnar í hlaðvarpinu Helga-spjall á Samstöðinni en enginn hefur lýst yfir framboði til embættisins.
Ragnar staðfesti við mbl.is í fyrradag að hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta ASÍ á þingi sambandsins sem fer fram í lok október. Þá hyggst hann stíga til hliðar sem starfandi formaður VR, nái hann kjöri.
Ragnar sagði í Helga-spjallinu að það væri skýrt og klárt að hann vildi Sólveigu í embættið og að hann, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Sólveig Anna og Vilhjálmur Birgisson yrðu sterkt forystuteymi.
Kristján Þórður tók tímabundið við embætti forseta ASÍ þegar Drífa Snædal sagði af sér 10. ágúst síðastliðinn en hann tilkynnti snemma í september að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ í október en vildi enn vera fyrsti varaforseti.
Vilhjálmur, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, tilkynnti í fyrradag að hann hygðist bjóða sig fram til að verða þriðji varaforseti ASÍ.