Datt um hlaupahjól og missti meðvitund

Lögreglan að störfum í miðbænum.
Lögreglan að störfum í miðbænum. mbl.is/Ari

Um sjöleytið í gærkvöld barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um slys í miðbæ Reykjavíkur. Að sögn vitnis datt 66 ára maður um rafhlaupahjól og á húsvegg. Hann er talinn hafa misst meðvitund við fallið og blæddi úr nefi hans. Maðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Tilkynnt var um annað slys um fjögurleytið í nótt í hverfi 105. Ungur maður datt af rafhlaupahjóli og fékk áverka á augabrún. Hann mundi lítið eftir því hvað gerðist og var hann fluttur til aðhlynningar á slysadeild. Hann er grunaður um ölvun við akstur, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Ekið á 11 ára dreng á hlaupahjóli

Þriðja slysið tengt rafhlaupahjólum sem tilkynnt var um varð á sjötta tímanum í gærkvöldi í Breiðholti. Bifreið var ekið á 11 ára dreng á rafhlaupahjóli. Drengurinn kvartaði undan verki í fæti og baki. Móðir drengsins var á vettvangi og var drengurinn fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Réðst á starfsmann pítsustaðar

Á ellefta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Breiðholti. Maður var handtekinn grunaður um að hafa ráðist á starfsmann pítsustaðar. Maðurinn var vistaður í fangageymslu en ekki er vitað um áverka hjá starfsmanninum.

Tilkynnt var um þjófnað á hóteli í hverfi 220 í Hafnarfirði á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Í öryggismyndavélum sást maður koma inn á hótelið og stela yfirhöfn og farsíma frá starfsmanni. Í yfirhöfninni voru einnig bíllyklar.

Tekinn á 146 km hraða

Bifreið var stöðvuð á Reykjanesbraut um hálfellefuleytið eftir hraðamælingu á 146 km hraða þar sem hámarkshraði er 80 km.

Í hverfi 200 í Kópavogi var bifreið stöðvuð um fimmleytið í gær. Hún var búin tveimur nagladekkjum og var ökumaðurinn kærður fyrir óheimila notkun á nagladekkjum.

14 ára undir stýri

Bifreið var stöðvuð í sama hverfi klukkan tíu í gærkvöldi. Ökumaðurinn framvísaði fölsuðu ökuskírteini, enda var hann aðeins 14 ára. Unnið er að málinu með aðkomu foreldra.

Afskipti voru höfð af manni í kyrrstæðri bifreið í Grafarvogi. Maðurinn sagðist hafa verið að reykja fíkniefni og framvísaði ætluðum fíkniefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert