„Þetta var í byrjun sumars sem hann Steinar komst á aldur, starfslokaaldur lögreglumanna er 65 ár, hann var hjá okkur í þrjú ár en hefur áratuga reynslu af lögreglustörfum,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is um mannabreytingar á lögreglustöðinni á Þórshöfn á Langanesi sem mbl.is greindi nýverið frá.
Steinar Snorrason hverfur nú inn í sól eftirlaunaáranna, er einmitt staddur á Kanaríeyjum í þessu viðtali, en eftirmenn hans eru parið Aron Guðmundsson og Dagný Karlsdóttir. Páley, sem er fyrrverandi lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og kemur auk þess þaðan, segir mbl.is frá starfi lögreglunnar á Norðurlandi eystra en auk þess ræðir Steinar ferilinn í lögreglunni og árin á Þórshöfn hér á eftir.
„Það hefur oft verið erfitt að manna þessar litlu stöðvar úti á landi,“ heldur Páley áfram, „við vorum því gríðarlega heppin að fá Steinar til liðs við okkur, en þarna eru tvær stöður lögreglumanna þótt hann hafi verið einn allan tímann. Við erum heldur betur ánægð með að vera nú búin að manna báðar stöðurnar menntuðum lögreglumönnum sem taka við af Steinari.“
Steinar var því í raun alltaf á vakt, væri hann ekki á vakt var hann á bakvakt með símann sér við hlið. Til að koma honum í frí voru fengnir afleysingamenn auk þess sem héraðslögreglumenn eru honum til aðstoðar og þeim sem sinna löggæslu á svæðinu. Héraðslögreglumenn eru fólk sem búsett er á svæðinu og kallað er til aðstoðar þegar þörf er á án þess að hafa lokið lögreglunámi.
„Við erum með okkar menn á Þórshöfn í þetta og það er okkur mjög dýrmætt, í þeim felst mikill liðsauki,“ segir lögreglustjórinn, „við rekum fimm lögreglustöðvar á Norðurlandi eystra, umdæmið er 23.300 ferkílómetrar, við mætum lögreglunni á Austurlandi við Vopnafjörð auk þess sem við erum með hluta af Vatnajökli og þjóðgarðinum, hálfur Tröllaskagi heyrir undir okkur og umdæmamörkin við Norðurland vestra eru á Öxnadalsheiðinni,“ útskýrir Páley.
Umdæmi hennar náði áður yfir 13 sveitarfélög en þeim hefur nú fækkað í 11 vegna sameininga sveitarfélaga. Hjá embættinu starfa venjulega nálægt hundrað manns, þar af 70, eða rétt rúmlega það, lögreglumenn. „Mesti fjöldinn er auðvitað á Akureyri og svo rekum við Tröllaskagann sem eina einingu og svo Húsavík og Þórshöfn saman þótt Þórshöfn sé með eigin lögreglustöð,“ segir hún.
Páley segir þéttbýlisvant fólk af suðvesturhorninu ekki alltaf átta sig á þeim áskorunum sem lögregla annars staðar á landinu búi við vegna víðfeðmra varðsvæða þar sem um óravegi getur verið að fara í útköll og jafnvel um mannslíf að tefla. „Til dæmis eru 160 kílómetrar frá Húsavík til Þórshafnar sem er svipað og að keyra frá Reykjavík til Staðarskála. Ef við ættum að sinna útköllum á þessu svæði [Langanesi] frá Húsavík værum við rosalega lengi á leiðinni eins og gefur að skilja, þá getur veður og ófærð gert okkur erfitt fyrir,“ segir Páley.
Hún kveður ákaflega mikilvægt í öryggislegu tilliti að lögreglumenn hafi viðveru á Þórshöfn. „Við erum ekki bara í því að handtaka fólk fyrir alvarleg afbrot, við erum líka að tryggja öryggi og aðstoða borgarana við allt mögulegt,“ leggur lögreglustjóri áherslu á og segir margt í gangi á Þórshöfn, þar sé blómleg útgerð og öflugt atvinnulíf auk þess sem nú sé farið að skjóta eldflaugum á loft frá Langanesi í tilraunaskyni með gervihnattaskot að markmiði síðar. „Þetta er okkar Canaveral-höfði,“ segir Páley sposk.
Hún er spurð út í lögreglustjórn á Norðurlandi eystra samanborið við Vestmannaeyjar án þess að stærðarmunur umdæmanna sé þar beint til umræðu. „Hér hefur verið virkilega áhugavert að starfa,“ segir lögreglustjórinn sem flutti sig úr Eyjum árið 2020, „það sem hefur þó alltaf mest að segja er fólkið sem maður vinnur með, það skiptir mjög miklu máli, og hér er mjög gott fólk og öflugt og rosalega flott lögreglulið í umdæminu þannig að ég er mjög ánægð með að vera komin hingað,“ segir Páley.
Enginn söknuður til heimaslóða í Eyjum þá?
„Jú, auðvitað stundum, foreldrar mínir eru þar og vinir, Heimaklettur komst heldur ekki með mér en það er gott að fá tækifæri til að breyta til,“ svarar Páley um hæl og bætir því við að Akureyri sé henni engan veginn ókunn, þar var hún í skóla auk þess sem tengdafjölskyldan sé þar, maður Páleyjar er að norðan. „En annars er ég löngu búin að ákveða að ég er hætt að ræða einhver persónuleg mál í fjölmiðlum,“ heldur lögreglustjóri áfram enda alveg nóg sem nú þegar er upplýst.
Að lokum segist Páley Borgþórsdóttir ánægð með sitt embætti, þar sé haldið uppi öflugri löggæslu, skilvirku landamæraeftirliti, sérhæfðu umferðareftirliti, hálendiseftirliti auk þess sem starfrækt er öflug rannsóknardeild. „Almannavarnir eru líka stór þáttur í okkar vinnu eins og þú kannski tekur eftir núna þegar er óvissustig vegna jarðskjálfta við Grímsey og landriss í Öskju. Hér eru skriðuföll, snjóflóð og önnur flóð og í mörg horn að líta hjá samstilltum og góðum hópi,“ eru lokaorðin að norðan.
Þá færum við okkur örlítið sunnar, alla leið til Kanaríeyjarinnar Gran Canaria þar sem Steinar Snorrason, fyrrverandi lögregluvarðstjóri á Þórshöfn á Langanesi, liggur í makindum á bekk við sundlaugarbarminn og baðar sig í hinni frægu sól eftirlaunaáranna. „Ég var einmitt að snúa mér þegar þú hringdir,“ segir Steinar léttur í lund.
Hvernig hófst 32 ára ferill í lögreglunni hjá honum?
„Það var nú eiginlega bara óvart,“ svarar Steinar, sígild saga þeirra sem ætla að stoppa á vinnustað eitt sumar og fara svo þaðan á eftirlaun áratugum síðar. „Ég ætlaði bara að sækja um sem héraðslögreglumaður en varðstjórinn í Borgarnesi sem ég hitti á sagði „nei nei, þú átt að sækja um þessa stöðu“. Það voru nokkrar stöður héraðslögreglumanna í boði og tvær fastar og hann sagði mér að sækja um aðra föstu stöðuna,“ rifjar Steinar upp. Sögusviðið er Borgarnes árið 1990.
Steinar gerði það sem fyrir hann var lagt, Snæfellingur sem bjó í Borgarnesi í 30 ár, sótti um föstu stöðuna, fékk hana og settist von bráðar á skólabekk í Lögregluskóla ríkisins sem þá var með gamla laginu og ekki kominn á háskólastig.
„Ég vann fyrst í eitt ár, tók svo fyrri hluta skólans, vann annað ár og tók svo seinni hlutann,“ rifjar Steinar upp af gamla kerfinu. Skólanum lauk hann 1993. „Við komum tveir nýir inn í Borgarnesi á sínum tíma og þegar við vorum búnir að vera í hálfan mánuð var lyklunum bara hent í okkur og sagt „jæja, nú er komið sumarleyfi og nú þurfið þið bara að taka við“,“ segir Steinar frá og hlær dátt á sólbekk sínum.
Þeir félagar hafi klórað sig fram úr verkunum þrátt fyrir reynsluleysið. „Ég var svo sem enginn unglingur, ég var orðinn 32 ára þarna og búinn að vinna við ýmislegt annað, var að smíða, vann á dekkjaverkstæði og fleira,“ segir hann.
Steinar gegndi lögreglustörfum í Borgarnesi í tæp 15 ár áður en hann hleypti heimdraganum og færði sig til höfuðstaðarins og byrjaði þar á hverfislögreglustöð í Grafarvoginum áður en hann flutti sig yfir í Grafarholt. Önnur 15 ár biðu hans á höfuðborgarsvæðinu og fyrr en varði var staðan sú að Steinar átti þrjú ár eftir af ferlinum.
„Þá tókum við hjónin þá ákvörðun að fara á Þórshöfn, fara svona aðeins út fyrir,“ segir hann frá. „Mig langaði að prófa eitthvað nýtt, það var eitthvað þannig bara, klára ferilinn þarna. Ég hafði aldrei komið til Þórshafnar og hvorugt okkar og þarna var ég í þrjú ár,“ heldur Steinar áfram, þá kominn í umhverfi gjörólíkt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Svæði hans náði meðal annars yfir Raufarhöfn, Kópasker og Bakkafjörð og oft um langa vegi að fara. „Svo leysti ég stundum verkefni á Vopnafirði, var þar sem „back-up“ hjá lögreglunni á Austurlandi. Þetta voru svona 70 kílómetrar í flestallar áttir lágmark og 160 á Húsavík þar sem stjórnstöðin fyrir mitt svæði var,“ segir hann frá.
Steinar neitar því ekki að árin þrjú í umdæminu hafi verið erfið og töluverð áskorun. „Ég var náttúrulega alltaf á vakt, alltaf með símann, maður var ræstur út á nóttunni og alla vegana,“ segir Steinar og kveður málin sem hann sinnti hafa verið af öllum toga, skipsströnd, illviðri auk allrar flóru mannlegs lífs. „Svo lokast maður náttúrulega bara inni þegar allt verður ófært og kemst hvorki lönd né strönd, þetta er náttúrulega mjög einangrað,“ segir hann en kveður þó samgöngumál öll horfa til betri vegar, „þetta eru held ég bara átta kílómetrar sem eru eftir á möl, það er Brekknaheiðin bara, frá Bakkafirði niður á Þórshöfn. Allt er orðið greiðara þarna, en ófærð og harðir vetur.“
Að vera eini lögreglumaðurinn í litlu þéttbýli setur þeim sem starfinu gegnir fastar skorður. Hann eða hún festist í hlutverkinu og er alltaf löggan gagnvart öðrum, önnur félagsleg hlutverk sjaldnast í boði. Um þetta má vitna í lokaverkefni þeirra Rebekku Rúnar Sævarsdóttur og Sifjar Þórisdóttur til BA-gráðu í lögreglu- og löggæslufræðum við Háskólann á Akureyri árið 2019 þar sem þær ræddu við sex lögreglumenn með víðtæka reynslu af löggæslustörfum í dreifbýli en Rebekka er einmitt nýtekin við varðstjórastöðu á Dalvík.
Þetta kannast Steinar vel við og samsinnir kirfilega. „Maður þarf að passa að verða ekki of náinn en samt vera alltaf til taks, maður gaf kannski svolítið færi á sér og fólk var að hringja í mann persónulega,“ segir hann og játar að einstigi þetta sé ekki alltaf auðfetað, „þú ert dálítið einn alltaf,“ bætir hann við en ber íbúum Þórshafnar vel söguna. „Svo var ég auðvitað með góða héraðslögreglumenn mér við hlið sem ég gat kallað í ef svo bar undir, en mest var maður einn.“
Helst segir hann starf við þessar aðstæður snúast um heilbrigða skynsemi og að vera samkvæmur sjálfum sér. „Lesa í aðstæður og annað slíkt. Maður þarf bara að hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir varðstjórinn fyrrverandi og er ánægður með tímann á Þórshöfn og eins þau 32 ár sem hann starfaði í lögreglunni. „Ég er bara mjög sáttur.“
Hvað tekur þá við í langa fríinu annálaða?
„Við hjónin ætlum að prófa að vera hérna á Kanarí í vetur, eða alla vega einhvern tíma, við erum ekki búin að ákveða það enn þá. En það er nóg um að hugsa, við hjónin eigum átta börn til samans og 18 barnabörn. Það var eitt sem var erfitt við Þórshöfn, að vera svona langt frá þeim, maður var átta, níu tíma að keyra þaðan í bæinn en það tekur ekki nema fimm tíma að fljúga frá Íslandi til Kanarí,“ segir Steinar Snorrason, fyrrverandi lögregluvarðstjóri og lögregluþjónn til þriggja áratuga, frá sundlaugarbarminum á Gran Canaria, sáttur við guð og menn og búinn að skila sínu ævistarfi.