Enn ein fyrirspurnin hefur borist Reykjavíkurborg um framtíð hins reisulega húss, Ægisgötu 7, þar sem í upphafi voru framleiddar stáltunnur. Þetta er hús á besta stað í borginni, skammt fyrir ofan Slippinn og Gömlu höfnina.
Nýjustu fyrirspurnina lagði eigandinn, Ráðagerði ehf. fram ásamt Zeppelin arkitektum. Þar er spurt hvort hækka megi bak- og framhús og óskað eftir leyfi til að vera með gistirekstur í húsinu.
Zeppelin hafa unnið frumdrög að nýrri tillögu, þar sem gert er ráð fyrir að öll bakbyggingin standi. Byggðar verði tvær inndregnar hæðir ofan á bakbygginguna auk þess sem reist verði þakhæð ofan á framhúsið, eins og heimilt er í gildandi skipulagi.
Í tillögunni er gert ráð fyrir allt að 46 herbergja eða gistiíbúða gististað, en vel megi sjá fyrir sér að hægt verði að leigja herbergin eða íbúðirnar út, t.d. til námsmanna.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 17. september.