Arnaldur Bárðarson, formaður Prestafélags Íslands (PÍ), ætlar ekki að verða við ákalli Félags prestvígðra kvenna um að hann segi af sér embætti vegna vanhæfis.
Félag prestvígðra kvenna fór fram á afsögn Arnaldar í vikunni þar sem þær telja formanninn vanhæfan til að gæta hagsmuna alls félagsfólks. Telja þær hann hafa tekið meðvitaða afstöðu með geranda í ofbeldismáli.
Ofbeldismálið sem um ræðir er mál Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju. Niðurstaða teymis Þjóðkirkjunnar, sem greint var frá í vikunni, er sú að Gunnar hafi í tíu tilvikum verið uppvís að háttsemi sem stríði gegn ákvæðum reglugerðar Þjóðkirkjunnar um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi.
„Félag prestvígðra kvenna er ákaflega mikilvægur hópur innan Prestafélags Íslands og ég heyri hvað þær segja. Hins vegar hefur málið marga fleti og ég sem formaður reyni að gæta hagsmuna félagsmanna í hvívetna. Ég var kjörinn til þess á aðalfundi og það hefur í sjálfu sér ekkert breyst að ég mun halda áfram að gæta hagsmuna í þessu stéttarfélagi,“ segir Arnaldur í samtali við mbl.is.
Þú ert í raun að segja að þú sért ekki að fara segja af þér?
„Ég er ekki að fara segja af mér. Ég mun hins vegar boða til félagsfundar þar sem að félagsmenn geta rætt málin. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þarna eigi sér stað upplýst góð umræða. Mikilvægt er núna að kalla eftir að öll gögn málsins komi fram.
Ég hef kallað eftir niðurstöðu teymisins frá Biskupsstofu. Því hefur verið hafnað. Ég skora á biskup Íslands að birta skýrsluna sem unnin var í máli presta í Hjalla- og Digraneskirkju. Ég trúi á opna umræðu. Við erum stærsta lýðræðishreyfing landsins, Þjóðkirkjan, og þar eiga öll mál að vera uppi á borðinu,“ segir Arnaldur.
Bætir hann við að í samtölum sínum við geranda og þolendur málsins hafi komið fram að allir vilji að skýrslan verði gerð opinber. Þjóðkirkjan segi hins vegar að hún sé bundin trúnaði við hlutaðeigendur og vilji því ekki gera hana opinbera.
Spurður út í ásakanir Félags prestvígðra kvenna, um að hann hafi tekið afstöðu með gerandanum og gert lítið úr trúverðugleika teymisins sem vann skýrsluna, segir Arnaldur:
„Ég vísa því sem kemur þarna fram algjörlega á bug. Það eru hrein ósannindi að ég hafi reynt að gera lítið úr teyminu eða villt á mér heimildir eða að ég hafi tekið afstöðu með einum aðila gegn öðrum.“