Fríkirkjan í Hafnarfirði hlaut heiðursverðlaun Snyrtileikans í ár við hátíðlega athöfn sem fór fram fyrir helgi. Þar fengu fyrirtækin Andrea og HS veitur einnig viðurkenningar fyrir snyrtileika auk þess sem sem Fjóluhlíð 5-17 og 6-18 voru valdar stjörnugötur ársins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Þar segir að Fríkirkjan sé reisuleg, standi hátt og gnæfi yfir hjarta bæjarins. Hún hafi margþættu hlutverki að gegna, sé opin fyrir fjölbreyttri menningarstarfsemi ásamt því að vera griðastaður þeirra sem þurfi á nærveru, kærleika, hlustun og skilningi að halda.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að eigendur Artwerk og Andreu, með hönnuðinn Andreu Magnúsdóttur í fararbroddi, hafi gert upp fallegt hús við Vesturgötu 8 á reit Byggðasafns Hafnarfjarðar. Lóðin sé ekki stór en hús verslunar sem var opnuð á árinu 2021 sé til mikillar prýði á reitnum og rími vel við það umhverfi sem það stendur við.
Þá fá HS veitur viðurkenningu fyrir fallegan frágang lóðar á athafna- og iðnaðarsvæði. HS veitur sameinuðu starfsemi sína á nýjum stað á Selhrauni í Hafnarfirði í nóvember árið 2020. Strax við byggingu hússins var farið í að móta lóðina og er niðurstaðan gott samtal við umhverfið, grjót og náttúrutorf með starfmannaaðstöðu á myndarlegum palli sem snýr á móti sólu.