Finna að starfsháttum Sveins Andra

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK1923. Úrskurðarnefnd LMFÍ hefur fundið …
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK1923. Úrskurðarnefnd LMFÍ hefur fundið að starfsháttum hans varðandi samskipti við lögmann hluta kröfuhafa. mbl.is/Þorsteinn

Sú háttsemi lögmannsins Sveins Andra Sveinssonar, sem var skiptastjóri þrotabúsins EK1923, að svara ekki ítrekuðum póstum frá lögmanni tveggja félaga sem voru kröfuhafar í búið, í aðdraganda þess að lokaskiptafundur var haldinn, var andstæð við siðareglur lögmanna. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar lögmanna. Nefndin hafnar því hins vegar að skiptastjórinn hafi vanrækt skyldur sínar við boðun fundarins eða að ákveðnir kröfuhafar hafi fengið nákvæmari upplýsingar en aðrir um fundinn. mbl.is hefur úrskurðinn undir höndum, en hann hefur enn ekki verið birtur á vef Lögmannafélags Íslands. Greindi RÚV fyrst frá úrskurðinum.

Stefnendur í málinu eru félögin Stjarnan ehf. og Sjöstjarnan ehf. Bæði félögin eru í eigu athafnamannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, sem jafnan er kenndur við Subway. Er þetta eitt af fjölmörgum málum þar sem þeir Sveinn Andri hafa tekist á, á vettvangi dómstóla og í fjölmiðlum. Nú síðast fór mál fyrir úrskurðarnefnd, en málin tengjast öll uppgjöri þrotabús EK1923 sem hafði verið í eigu félags Skúla Gunnars, en Sveinn Andri var skipaður skiptastjóri þess, sem fyrr segir.

EK1923 var skráð gjaldþrota í september 2016. Höfðaði Sveinn Andri í kjölfarið nokkur riftunarmál og tilkynnti meint brot stjórnenda félaganna til ákæruvalds. Fóru riftunarmálin í gegnum dómstóla og var niðurstaða í flestum þeirra þrotabúinu í hag. Í stærsta málinu þurfti Sjöstjarnan meðal annars að greiða búinu yfir 700 milljónir að dráttarvöxtum meðtöldum.

Í lok árs 2020, þegar stóri dómurinn lá fyrir, var ljóst að stutt væri í skiptalok. Hafði Skúli Gunnar í gegnum lögmann sinn meðal annars greitt upphæðina með þeim fyrirvara að hann myndi sækja um endurupptöku stóra málsins. Taldi hann því að Sveini Andra ætti að vera ljóst að félögin myndu gera athugasemdir við úthlutun úr búinu sem og þá þóknun sem væri áætluð til skiptastjóra.

Sveinn Andri setti auglýsingu í Lögbirtingablaðið 1. desember. Hún birtist sem almenn auglýsing en ekki auglýsing um skiptafund. Sagði Sveinn Andri í svörum til nefndarinnar að það hefði verið gert í samráði við ritstjóra Lögbirtingablaðsins þar sem fleira en úthlutun kæmi fram í auglýsingunni. Skúli Gunnar telur hins vegar að þetta hafi verið gert til að auka líkurnar á því að hún færir fram hjá vöktun lögmanns síns, sem varð niðurstaðan. Því hafi lögmaður hans ekki getað mótmælt úthlutuninni eða öðru á fundinum.

Þá er jafnframt bent á að lögmaður Skúla hafi á fyrri skiptafundi, sem fram fór í október 2019, bókað að boða ætti skiptafundina með tölvupósti. Í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar segir að aðrir kröfuhafar hafi fengið að vita af fundinum og það fari í bága við skyldur skiptastjórans.

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

Skúli Gunnar gerði athugasemdir við skiptinguna eftir að búinu hafði verið slitið. Hann krafðist þess að héraðsdómur myndi hafna tilkynningu um skiptalokin. Héraðsdómur hafnaði því þar sem búið væri að slíta þrotabúinu og því brysti félagið hæfi að lögum til að vera aðili að málinu fyrir dómstólum.

Vegna þessa krafðist Skúli Gunnar þess að Sveinn Andri yrði áminntur og að úrskurðarnefndin myndi leggja fyrir sýslumann að fella niður réttindi hans. Sveinn Andri krafðist hins vegar frávísunar málsins eða að kröfum væri hafnað.

Vísaði Sveinn Andri til þess að fundurinn hefði verið löglega auglýstur í Lögbirtingablaðinu og að auglýsingin hefði ekki verið meiri leyniauglýsing en svo að starfsmenn Skattsins hefðu séð hana sama dag og kallað eftir afriti af kröfuskrá.

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að umkvörtunarefnið falli undir valdsvið nefndarinnar og hafnar því frávísun málsins. Hins vegar segir jafnframt að auglýsingin í Lögbirtingablaðinu hafi samræmst lögum og að niðurstaða fundarins hafi verið í samræmi við auglýsinguna. Segir nefndin þar ekki breyta þó að lögmaður Skúla Gunnars og félaga hans hafi áður bókað að boða skyldi til fundarins með tölvupósti. Segir nefndin að skiptastjórinn sé ekki skuldbundinn af því.

Jafnframt segir í niðurstöðunum að engin gögn sýni fram á að aðrir kröfuhafar en félög Skúla Gunnars hafi verið boðaðir sérstaklega á fundinn.

Nefndin tekur hins vegar fram að fyrir hafi legið að ágreiningur kynni að vera uppi um skiptakostnað, meðal annars þóknun Sveins Andra. Þá hafi lögmaður Skúla Gunnars ítrekað sent erindi til Sveins Andra í aðdraganda fundarins án þess að þeim hafi verið svarað.

Gat Sveini Andra „ekki dulist að sóknaraðilar, sem umbjóðendur lögmannsins, hefðu í hyggju að mæta á næsta skiptafund og halda þar uppi þeim ætluðu hagsmunum sem þeir höfðu boðað sem og að þeim hafi á hinum síðastgreinda degi verið ókunnugt um hinn fyrirhugaða skiptafund næsta dag,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. „Þrátt fyrir það kaus varnaraðili að láta hjá líða að svara erindum frá lögmanni sóknaraðila.“

Telur nefndin þessi vinnubrögð Sveins Andra ekki í samræmi við góða lögmannshætti. „Við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst verður talið að mati nefndarinnar að það hefði samræmst góðum lögmannsháttum af hálfu varnaraðila að svara þeim ítrekuðu erindum sem lögmaður sóknaraðila beindi til hans um framvindu skiptanna.“ Er vísað til siðareglna lögmanna um að þeir skuli svara erindum og bréfum án ástæðulauss dráttar. „Var sú háttsemi varnaraðila að láta það ógert í andstöðu við 1. mgr. 41. gr. siðareglna lögmanna,“ segir að lokum og tekið fram að sú háttsemi teljist aðfinnsluverð.

Þrátt fyrir að skiptum sé lokið á þrotabúinu er viðskiptum þeirra Skúla Gunnars og Sveins Andra fyrir dómstólum ekki lokið. Um helgina var greint frá því að Landsréttur hefði heimilað að kvaddur yrði til matsmaður til að skoða og meta hvort skiptakostnaður við þrotabú EK1923 hafi verið eðlilegur. Hann hljóðaði upp á 198 milljónir og var þóknun skiptastjóra 167 milljónir. Til viðbótar á Skúli Gunnar í málaferlum við KPMG í tengslum við fasteignakaup sem voru uppistaðan í stóra riftunarmálinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert