Maðurinn sem lést í umferðarslysi á Örlygshafnarvegi við Látravík þann 12. nóvember síðastliðinn var ekki spenntur í öryggisbelti. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknanefndar samgönguslysa.
Í skýrslu nefndarinnar, sem gefin var út í dag, segir að breyttum Land Cruiser-jeppa hafi verið ekið niður brattan veg í átt að Látravík, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni þannig að hún fór út af veginum í miðri beygju, og niður fyrir hann þar sem hún valt.
Bifreiðin fannst tveimur dögum síðar.
Hinn látni var 73 ára gamall karlmaður en hann var einn í bifreiðinni.
Dánarorsök var ofkæling en maðurinn hlaut einnig höfuð- og brjóstholsáverka. Nefndin telur að hann hefði mögulega lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti.
Einnig kemur fram að viðgerð sem hafði verið gerð á hemlabúnaði bifreiðarinnar hafi verið ófullnægjandi. Þá var bifreiðin án skoðunar þegar slysið átti sér stað.