Segja konurnar ljúga og vilja afsökunarbeiðni

Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir og oddviti flokksins á Akureyri, og Jón …
Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir og oddviti flokksins á Akureyri, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur sem skipar þriðja sæti listans. Samsett mynd

Karlar í forystu Flokks fólksins á Akureyri fullyrða að þeir hafi aldrei lítilsvirt efstu þrjár konurnar á lista flokksins á trúnaðarfundum. Þá hafi þær jafnframt aldrei verið kallaðar vitlausar eða geðveikar heldur þvert á móti setið við sama borð og verið jafningjar karlanna.

Segja þeir yfirlýsingu kvennanna vera „fjarri öllu sanni sem hugsast getur“ og krefja þeir konurnar um að taka ummæli sín til baka og biðjast opinberlega afsökunar.

Þetta kemur fram í pistli karlanna á Akureyri.net sem ber yfirskriftina „Konurnar segja ósatt og varaformaður lætur hafa sig að fífli.“ Mennirnir sem um ræðir eru þeir Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir og oddviti flokksins á Akureyri, og Jón Hjaltason, sagnfræðingur sem skipar þriðja sæti listans. 

Beinist pistillinn að Málfríði Þórðardóttur, Tinnu Guðmundsdóttur og Hannesínu Scheving Virgild Chester, sem nýlega lögðu fram ásakanir á hendur mannanna í yfirlýsingu. Í yf­ir­lýs­ingu kvennanna er því m.a. lýst að sum­ar þeirra hafi mátt sæta kyn­ferðis­legu áreiti og „virki­lega óviðeig­andi fram­komu auk þess að vera sagðar ekki starf­inu vaxn­ar og geðveik­ar“.

Konurnar hafi verið „nauðbeygðar“

Fram kemur í pistlinum mannanna að konurnar hafi lagt fram ásakanirnar á hendur þeirra „nauðbeygðar“ í kjölfar yfirlýsinga varaformanns flokksins sem birtist á Facebook síðu hans.

Vekja þeir athygli á að ásakanirnar hafi birst skömmu eftir yfirlýsingu varaformannsins og segja þeir að samhengið þar á milli veki óneitanlega upp spurningar.

„Fjarri öllum sanni“

„Fullyrðingar kvennanna eru svo fjarri öllum sanni sem hugsast getur. Síðan Brynjólfur náði kjöri í bæjarstjórn Akureyrar hefur forustusveit flokksins fundað býsna reglulega. Sú sveit er skipuð okkur undirrituðum og konunum þremur sem nú bera okkur þungum sökum.

Á þessum trúnaðarfundum hafa þær aldrei – við undirstrikum aldrei – verið lítilsvirtar, hvað þá kallaðar vitlausar eða geðveikar. Þvert á móti hafa þar allir setið við sama borð, verið jafningjar, og þær ekki síður en undirritaðir haft orðið,“ segir í pistlinum.

„Eina ofbeldið“ þegar barið var í borð

Segja þeir eina ofbeldið sem „þessar konur geta mögulega kvartað undan“ vera þegar að Jón barði í borðið á fundi þann 10. september til að heimta ákveðið svar. Þeir lýsa fundinum í pistlinum:

Hvað varðar 10. septemberfundinn þá mætti Málfríður Þórðardóttir grátandi á þann fund. Hefur eitthvað komið fyrir, er hægt að gera eitthvað fyrir þig, eigum við ekki að fresta fundi uns þú hefur jafnað þig? Með þessum orðum var tekið á móti henni. Það hvessti hins vegar þegar umræðan hófst um tilraun hennar og stallsystra til að hrekja Brynjólf úr bæjarstjórn. Sem að vísu átti að gerast undir yfirskini mannkærleika. Semja átti „tilmæli“ þar sem Brynjólfur væri hvattur til að taka sér veikindaleyfi sem hafði þó aldrei verið borið undir hann sjálfan, er hann þó læknir að mennt.

„Hversu lágt getur mannskepnan lagst“

Þá skora þeir á konurnar að tilgreina allar þær rangfærslur og hótanir sem finna má í bréfi oddvitans, sem konurnar hafa nefnt að sé hlaðið rógburði.

„Að lokum um hið „kynferðislega áreiti“ sem „sumar okkar“ hafa orðið fyrir svo vitnað sé beint í skrif kvennanna. Okkur setur einfaldlega hljóða við þessi orð og áleitin spurning situr eftir: Hversu lágt getur mannskepnan lagst til að koma höggi á náunga sinn?

Við höfum þegar krafist þess af títtnefndum konum að þær taki ömurleg og mannorðs-skemmandi ummæli sín til baka, biðjist opinberlega afsökunar og geri það sem allra fyrst. Sú krafa er hér með ítrekuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert