Sérsveit kölluð til vegna hnífaburðar

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á Akureyri eftir að tilkynnt …
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á Akureyri eftir að tilkynnt var um hnífaburð við grunnskóla þar nyrðra um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á Akureyri aðfaranótt laugardags eftir að lögreglu barst tilkynning um hnífaburð unglinga við grunnskóla þar í bænum. Fóru lögreglumenn á staðinn og í kjölfarið var bifreið stöðvuð þar sem meintir gerendur voru innanborðs.

Voru tveir þeirra handteknir, grunaðir um vopnalagabrot og hótanir, og gistu þeir fangageymslur stutta stund en um var að ræða ólögráða unglinga, sakhæfa þó. Vann lögregla málið með aðkomu barnaverndar og var foreldrum hinna handteknu gert viðvart. „Lögregla lítur vopnaburð alvarlegum augum og slíkt er aldrei réttlætanlegt, að ógna öðrum með vopnum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook-síðu hennar.

Símanotkun án tals

Var að öðru leyti rólegt í umdæminu um helgina en 173 bókanir þó skráðar í kerfi lögreglu sem kalla má hefðbundna helgi að sögn lögreglu.

Fimmtán voru kærðir fyrir hraðakstur, sá sem hraðast ók var á 120 kílómetra hraða miðað við klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði er 90. Þá voru einhverjir kærðir fyrir að nota síma án handfrjáls búnaðar undir stýri og eiga von á sektum. Sýnist lögreglu símanotkun við akstur hafa heldur aukist og þá ekki endilega að fólk sé að tala í símann, eins og gert var í gamla daga, heldur skrifa skilaboð og nota samfélagsmiðla.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir án öryggisbelta við akstur. „Okkur er það hulin ráðgáta hvers vegna fólk spennir ekki öryggisbeltin. Þetta tekur örskamma stund og bjargar mannslífum eða forðar alvarlegum slysum þegar árekstur eða óhapp verður. Það er nefnilega spennandi að vera spenntur,“ skrifar lögregla á Facebook.

Hávaði, spól og bros

Þrjú umferðaróhöpp og tvö vinnuslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Norðurlandi eystra um helgina og voru aðilar fluttir á bráðamóttöku til skoðunar og aðhlynningar.

Auk framangreinds var eitthvað um tilkynningar vegna hávaða frá fólki er gerði sér glaðan dag eins og vill gerast um helgar og heyrðist einnig af glæfraakstri og spólhávaða. „Við viljum biðla til ökumanna að fá frekar heimild til að nota akstursíþróttasvæðið ofan bæjarins til að æfa spól og spyrnur, ekki götur bæjarins eða nágrennis. Takk fyrir kærlega,“ ritar lögregla.

Var helgin ellegar stóráfallalaus og þakkar lögregla flest samskipti við samborgarana. „Okkur langar hér að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur, brostu til okkar um helgina og líka þeim sem gerðu það ekki. Síðan óskum við ykkur velfarnaðar í umferðinni og lífinu,“ klykkja laganna verðir út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert