Leigubíll og strætisvagn lentu saman á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu um klukkan 10 í morgun. Þetta staðfestir Stefán Kristinsson varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Rúv greindi fyrst frá.
Einn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, og var sá í leigubílnum, en áverkar hans reyndust ekki mjög hættulegir, að sögn varðstjórans.
Þá var dælubíll sendur á vettvang til að þrífa upp olíu sem hafði lekið úr bílnum. Störfum slökkviliðsins er nú lokið á vettvangi.