„Vildum koma okkar upplifun fram í eitt skipti fyrir öll“

Forystufólk í Flokki fólksins á Akureyri.
Forystufólk í Flokki fólksins á Akureyri. Ljósmynd/Flokkur fólksins

„Það var mjög erfitt fyrir okkur að gera þetta en við erum jafnframt stoltar af því að hafa látið vaða,“ segir Hannesína Scheving Skarphéðinsdóttir í samtali við mbl.is.

Hannesína, Tinna Guðmundsdóttir og Málfríður Þórðardóttir, þrjár efstu konur á lista Flokks fólksins á Akureyri, héldu blaðamannafund í dag þar sem þær lýstu samskiptum sínum við þrjá menn innan flokksins.

Þær saka Brynjólf Ingvarsson, Jón Hjaltason og Hjörleif Hallgríms Herbertsson um andlegt ofbeldi, niðrandi hegðun í sinn garð og þann síðastnefnda um kynferðislegt áreiti eins og fram kemur á Vísi.

Mennirnir hafa hafnað ásökunum en konurnar héldu fundinn í dag til að koma sinni upplifun á framfæri.  „Við vildum koma okkar skýringu fram í eitt skipti fyrir öll. Þetta hefur valdið okkur gífurlegri vanlíðan,“ segir Hannesína.

Legði aldrei hendur á konur nema í rúminu

Tinna segir að Hjörleifur hafi ítrekað boðið henni heim til sín einsamalli og tjáð henni að hann legði aldrei hendur á konur, nema í rúminu. 

„Við þurfum ekki að sitja undir skaðandi samskiptum,“ sagði Hannesína á fundinum í dag. Hún hafði safnað undirskriftum fyrir flokkinn fyrr á árinu en þorði ekki að afhenda Hjörleifi listann þegar að því kom.

„Heldur ákvað ég að setja listann inn um blaðalúguna hjá manninum og tók svo hreinlega til fótanna til að hitta ekki á hann. Ég hafði engan áhuga á að hitta þennan mann, hvað þá að vera ein með honum,“ sagði Hannesína.

Málfríður segir Brynjólf og Jón hafa verið meðvitaða um áreiti Hjörleifs í þeirra garð og fengu loks samþykkt að sá síðastnefndi yrði ekki með á fundum. Það var svo í ágúst að Jón stakk upp á að bjóða Hjörleifi aftur til fundanna.

Brynjólfur og Jón hafa hafnað ásökunum kvennanna og hótað kæru í málinu. Spurð, hvort útskýring karlanna á atvikum sé í einhverju samræmi við upplifun kvennanna, svarar Hannesína neitandi. „Nei, alls ekki. Það kom skýrt fram hvernig mál okkar liggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert