„Auðvitað er þetta áfall“

Lava-parið Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson varð fyrir búsifjum …
Lava-parið Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson varð fyrir búsifjum í bruna við Fiskislóð í nótt en þau taka því sem hverju öðru hundsbiti og halda ótrauð áfram við undirbúning opnunar síðar í haust. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna kvikn­ar eld­ur í nótt, tutt­ugu mín­út­ur yfir þrjú, það kvikn­ar í strompi þegar verið er að bræða hraun, bræðslu­mark þess er 1.100 gráður svo hit­inn er mik­ill,“ seg­ir Ragn­hild­ur Ágústs­dótt­ir, ann­ar eig­enda og rekstr­araðila Lava Show við Fiskislóð þar sem eld­ur kom upp í nótt og tölu­vert tjón varð á þaki húss­ins.

„Við erum búin að vera með þessa starf­semi í fjög­ur ár í Vík og þekkj­um þetta vel en í þessu til­felli virðist stromp­ur­inn ekki hafa þolað hit­ann og kviknað í hon­um,“ held­ur hún áfram. Eins og mbl.is greindi frá í morg­un voru starfs­menn á staðnum þegar eld­ur­inn kom upp, ann­ar þeirra Júlí­us Ingi Jóns­son, maður Ragn­hild­ar sem jafn­framt er fram­kvæmda­stjóri Lava Show.

„Með hon­um var yf­ir­bræðslu­meist­ar­inn okk­ar, Mak­symili­an Kaczma­rek, þeir voru við ofn­inn þegar eld­ur­inn kem­ur upp og hringja strax í slökkviliðið sem kem­ur mjög fljótt á vett­vang. Eld­ur­inn var mjög staðbund­inn í og við stromp­inn og breidd­ist ekki mikið út,“ seg­ir Ragn­hild­ur og bæt­ir því við að lán í óláni hafi verið að þau Júlí­us viti nú að ör­yggis­kerfi hús­næðis­ins virk­ar sem skyldi en þau eru um þess­ar mund­ir að hefja rekst­ur­inn í Reykja­vík.

Snar­bregður þegar svona kem­ur upp

„Auðvitað er þetta áfall, manni snar­bregður þegar eitt­hvað svona kem­ur upp, en skemmd­ir inn­an­dyra eru óveru­leg­ar og all­ur búnaður­inn virðist virka. Það sem mest er þó um vert er að eng­in slys hafi orðið á fólki, það er aðal­atriðið. Þetta er að sjálf­sögðu öm­ur­legt, þetta ger­ist rétt fyr­ir vænt­an­lega opn­un en við fáum þarna ákveðið ör­yggis­tékk á húsið. Þarna er eitt­hvað sem þarf að laga en allt annað virkaði full­kom­lega svo við gleðjumst bara yfir að þetta kom upp áður en við opnuðum húsið fyr­ir al­menn­ing,“ seg­ir Ragn­hild­ur.

Júlíus framkvæmdastjóri í símanum. Þau Ragnhildur bíða nú eftir fólki …
Júlí­us fram­kvæmda­stjóri í sím­an­um. Þau Ragn­hild­ur bíða nú eft­ir fólki frá trygg­ing­un­um og að ýmsu að hyggja á næst­unni eft­ir óhappið í nótt sem fór mun bet­ur en á horfðist. Ljós­mynd/​Aðsend

Til stóð að opna Lava Show í Reykja­vík á næstu vik­um en nú er ljóst að Júlí­us og Ragn­hild­ur þurfa lík­lega að rifa segl­in og sjá hvað næstu dag­ar bera í skauti sér. „Við erum að bíða eft­ir að fólk frá trygg­inga­fé­lag­inu mæti á staðinn og við náum aðeins bet­ur utan um hvernig staðan er, aug­ljós­lega þarf að laga þakið á hús­inu en sem bet­ur fer er annað í lagi sem er það já­kvæða sem hægt er að taka út úr þessu. Nú er næsta verk­efni bara að gera viðeig­andi ráðstaf­an­ir,“ seg­ir Ragn­hild­ur.

Hún seg­ir fjög­urra ára reynslu af hraun­bræðslu í at­vinnu­skyni í Vík í Mýr­dal koma sér vel, starfs­fólkið sé þaul­vant og góð reynsla kom­in á starf­sem­ina. „Ég vona bara að þetta fari allt á besta veg og við get­um farið að bræða hraun fyr­ir gesti og gang­andi í Reykja­vík inn­an tíðar,“ seg­ir Ragn­hild­ur en rekst­ur­inn er auðvitað ný­kom­inn úr öðru bak­slagi sem var heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru.

Langafi Júlí­us­ar hluti sýn­ing­ar­inn­ar

„Þetta hef­ur nú samt gengið lygi­lega vel, við byrjuðum 2018 fyr­ir aust­an og þetta hef­ur fengið gríðarlega góðar viðtök­ur, auðvitað fyrsta al­vöru­hraun­sýn­ing­in í heim­in­um. Það var helj­ar­inn­ar ferli að koma þessu á kopp­inn og þetta var allt upp og ofan í Covid en árið í ár hef­ur verið al­veg ótrú­legt, all­ir sem koma til okk­ar eru svo ánægðir,“ seg­ir Ragn­hild­ur.

Ragnhildur segir reksturinn hafa verið upp og niður í heimsfaraldrinum …
Ragn­hild­ur seg­ir rekst­ur­inn hafa verið upp og niður í heims­far­aldr­in­um en árið í ár hafi verið mjög gott fram að þessu. Þau hafa rekið hraun­bræðsluna í fjög­ur ár í Vík í Mýr­dal og opna nú í Reykja­vík. Ljós­mynd/​Aðsend

Sýn­ing­in sam­eini fræðslu, skemmt­un og upp­lif­un og nefn­ir hún sem dæmi um það síðasta hita­bylgj­una sem fer um sýn­ing­ar­sal­inn er gló­andi hraunið fer þar um. „Þetta er veisla fyr­ir öll skyn­færi,“ held­ur hún áfram.

„Eld­fjalla­fræðing­ar og jarðfræðing­ar eru í vinnu hjá okk­ur svo þetta sé nú allt rétt. Júlí­us er ættaður úr sveit­inni þarna fyr­ir aust­an Vík, úr Álfta­ver­inu, og við segj­um sögu langafa Júlí­us­ar í sýn­ing­unni, hann lenti í Kötlugos­inu 1918, svo okk­ur hef­ur tek­ist að búa til upp­lif­un sem er í senn per­sónu­leg og fræðandi,“ seg­ir Ragn­hild­ur Ágústs­dótt­ir að lok­um og býr sig nú und­ir að koma úti­bú­inu í Reykja­vík á rétt­an kjöl eft­ir brun­ann í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka