„Þarna kviknar eldur í nótt, tuttugu mínútur yfir þrjú, það kviknar í strompi þegar verið er að bræða hraun, bræðslumark þess er 1.100 gráður svo hitinn er mikill,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir, annar eigenda og rekstraraðila Lava Show við Fiskislóð þar sem eldur kom upp í nótt og töluvert tjón varð á þaki hússins.
„Við erum búin að vera með þessa starfsemi í fjögur ár í Vík og þekkjum þetta vel en í þessu tilfelli virðist strompurinn ekki hafa þolað hitann og kviknað í honum,“ heldur hún áfram. Eins og mbl.is greindi frá í morgun voru starfsmenn á staðnum þegar eldurinn kom upp, annar þeirra Júlíus Ingi Jónsson, maður Ragnhildar sem jafnframt er framkvæmdastjóri Lava Show.
„Með honum var yfirbræðslumeistarinn okkar, Maksymilian Kaczmarek, þeir voru við ofninn þegar eldurinn kemur upp og hringja strax í slökkviliðið sem kemur mjög fljótt á vettvang. Eldurinn var mjög staðbundinn í og við strompinn og breiddist ekki mikið út,“ segir Ragnhildur og bætir því við að lán í óláni hafi verið að þau Júlíus viti nú að öryggiskerfi húsnæðisins virkar sem skyldi en þau eru um þessar mundir að hefja reksturinn í Reykjavík.
„Auðvitað er þetta áfall, manni snarbregður þegar eitthvað svona kemur upp, en skemmdir innandyra eru óverulegar og allur búnaðurinn virðist virka. Það sem mest er þó um vert er að engin slys hafi orðið á fólki, það er aðalatriðið. Þetta er að sjálfsögðu ömurlegt, þetta gerist rétt fyrir væntanlega opnun en við fáum þarna ákveðið öryggistékk á húsið. Þarna er eitthvað sem þarf að laga en allt annað virkaði fullkomlega svo við gleðjumst bara yfir að þetta kom upp áður en við opnuðum húsið fyrir almenning,“ segir Ragnhildur.
Til stóð að opna Lava Show í Reykjavík á næstu vikum en nú er ljóst að Júlíus og Ragnhildur þurfa líklega að rifa seglin og sjá hvað næstu dagar bera í skauti sér. „Við erum að bíða eftir að fólk frá tryggingafélaginu mæti á staðinn og við náum aðeins betur utan um hvernig staðan er, augljóslega þarf að laga þakið á húsinu en sem betur fer er annað í lagi sem er það jákvæða sem hægt er að taka út úr þessu. Nú er næsta verkefni bara að gera viðeigandi ráðstafanir,“ segir Ragnhildur.
Hún segir fjögurra ára reynslu af hraunbræðslu í atvinnuskyni í Vík í Mýrdal koma sér vel, starfsfólkið sé þaulvant og góð reynsla komin á starfsemina. „Ég vona bara að þetta fari allt á besta veg og við getum farið að bræða hraun fyrir gesti og gangandi í Reykjavík innan tíðar,“ segir Ragnhildur en reksturinn er auðvitað nýkominn úr öðru bakslagi sem var heimsfaraldur kórónuveiru.
„Þetta hefur nú samt gengið lygilega vel, við byrjuðum 2018 fyrir austan og þetta hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur, auðvitað fyrsta alvöruhraunsýningin í heiminum. Það var heljarinnar ferli að koma þessu á koppinn og þetta var allt upp og ofan í Covid en árið í ár hefur verið alveg ótrúlegt, allir sem koma til okkar eru svo ánægðir,“ segir Ragnhildur.
Sýningin sameini fræðslu, skemmtun og upplifun og nefnir hún sem dæmi um það síðasta hitabylgjuna sem fer um sýningarsalinn er glóandi hraunið fer þar um. „Þetta er veisla fyrir öll skynfæri,“ heldur hún áfram.
„Eldfjallafræðingar og jarðfræðingar eru í vinnu hjá okkur svo þetta sé nú allt rétt. Júlíus er ættaður úr sveitinni þarna fyrir austan Vík, úr Álftaverinu, og við segjum sögu langafa Júlíusar í sýningunni, hann lenti í Kötlugosinu 1918, svo okkur hefur tekist að búa til upplifun sem er í senn persónuleg og fræðandi,“ segir Ragnhildur Ágústsdóttir að lokum og býr sig nú undir að koma útibúinu í Reykjavík á réttan kjöl eftir brunann í nótt.