Einkarekna heilsugæslan hangir á algjörum bláþræði

Samningurinn rennur að óbreyttu út um mánaðamót.
Samningurinn rennur að óbreyttu út um mánaðamót. mbl.is/Árni Sæberg

Margframlengdur þjónustusamningur einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu rennur að öllu óbreyttu út um komandi mánaðamót. Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Heilsugæslunnar Höfða, þeirrar stærstu á landinu, segir í viðtali í Dagmálum að ekki sé hægt að una við óbreytt ástand lengur. Stöðvarnar séu reknar með viðvarandi halla í núverandi fjármögnunarumhverfi og að samningar hafi verið endurnýjaðir frá mánuði til mánaðar allt þetta ár.

„[...] Það eru í raun þrír möguleikar í stöðunni. Að lýsa yfir þroti um næstu mánaðamót eða þarnæstu. Ég held að ég megi tala fyrir hönd allra einkareknu stöðvanna að þetta er staðan hjá þeim öllum. Þetta er bara spurning um einhverjar vikur til eða frá. Ef við förum í þrot þá er þessi þjónusta farin. Þá er búið að taka einn þriðja af heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í burtu og kerfið er ekki beysið fyrir. Þannig að það er hlutur sem er ekki hægt að láta gerast.“

Segist Gunnlaugur bera veika von í brjósti um að fjármálaráðherra bæti stöðvunum það tjón sem þær hafi orðið fyrir vegna ágalla á fjármögnunarlíkani því sem komið var á laggirnar árið 2017. Ef það gerist ekki neyðist stöðvarnar til þess að senda helming lækna sinna í ólaunað leyfi fram að áramótum eða allt fram á næsta fjárlagaár. Það verði þá gert í von um að bætt verði úr stöðunni með nýjum fjárlögum. Aðgerðir af þessu tagi muni hins vegar koma niður á skjólstæðingum stöðvanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert