Þórður Snær Júlíusson blaðamaður hefur kært Pál Steingrímsson, skipstjóra hjá Samherja, fyrir hótun.
Þetta segir Þórður í grein sem hann birtir í dag á Kjarnanum, sem hann ritstýrir.
„Hér er einnig hægt að greina frá því að ég, og fleiri fjölmiðlamenn, höfum kært Pál Steingrímsson fyrir hótun í okkar garð sem barst í tölvupósti í júlí 2022. Sú kæra hefur verið undirrituð og móttekin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og er nú til rannsóknar þar,“ skrifar Þórður.
Þá tekur hann fram að full ástæða hafi verið til að taka hótunina alvarlega, meðal annars vegna þess að Páll hafi gefið til kynna á samfélagsmiðlum að hann sé ekki fráhverfur því að nota skotvopn á blaðamenn.
Þá hefur Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, falið lögmanni sínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu skeri úr um það hvort aðgerðir lögreglu gegn honum og fleiri blaðamönnum hafi staðist lög.
Tilefni þess er að Aðalsteinn og fleiri blaðamenn fengu stöðu sakbornings vegna meintra brota á friðhelgi einkalífs og umfjöllunar um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Blaðamennirnir voru boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
„Ég er enn á því að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort þessi leiðangur lögreglunnar nyrðra sé lögmætur. Því hef ég falið lögmanni mínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu fjalli efnislega um málið. Slíkt mál hefur því verið höfðað,“ skrifar Aðalsteinn á vef Stundarinnar.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hefði ekki verið heimilt að veita Aðalsteini réttarstöðu sakbornings í rannsókn vegna umfjöllunarinnar.
Landsréttur vísaði í kjölfarið frá máli Aðalsteins gegn embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Aðalsteinn kærði frávísunarúrskurðinn til Hæstaréttar sem vísaði málinu einnig frá.
Leiðrétt: Áður var fullyrt að Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, hefði einnig kært Pál. Það er ekki rétt.