Laugardalslaug af skólpi í sjóinn á klukkustund

Skólpdælustöðin í Faxaskjóli.
Skólpdælustöðin í Faxaskjóli. Ljósmynd/Aðsend

Um það bil ein Laugardalslaug af óhreinsuðu skólpi rennur nú í sjóinn á hverri klukkustund frá skólpdælustöðinni í Faxaskjóli. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, tókst „hjáveituaðgerð“ í fráveitukerfinu að minnka það magn sem ella hafði farið í sjó um ríflega helming meðan stöðva þurfti starfsemi stöðvarinnar. 

Stöðva þurfti starfsemina vegna endurnýjunar á yfirfallsdælum en gert er ráð fyrir að hún fari aftur í fullan rekstur á fimmtudaginn.

„Við vorum að reyna alveg nýja hluti í þessari aðgerð til að lágmarka það magn af skólpi sem færi í sjó og gerðum hjáveituaðgerð á stöðinni. Við fengum leigðar dælur að utan og settum upp nýjar lagnir,“ segir Ólöf.

Kostnaður við „hjáveituaðgerðina“ er á bilinu 15-20 milljónir en með henni var skólpinu dælt fram hjá dælustöðinni og í hreinsistöð með bráðabirgðalögnum ofanjarðar.

Minnkuðu magnið um helming

Ólöf segir það hafa gengið mjög vel framan af að koma í veg fyrir að skólp færi í sjó og með búnaðinum hafi tekist að lágmarka það skólp sem rynni út í sjó.

„Síðan stóðu dælurnar sig ekki nógu vel og þær fóru að bila og voru „on“ og „off“ en eru núna alveg úti þannig að við höfum engin önnur ráð en að setja skólp í sjó, eins og hefur alltaf verið gert þegar hefur þurft að sinna viðhaldi eða bilun. Það er bara hluti af því að reka svona stöð. Það eru engar aðrar leiðir,“ bætir Ólöf við.

Framkvæmdir hófust við stöðina 19. ágúst og byrjuðu dælurnar að hökta í kringum 13. september. Að sögn Ólafar var síðan orðið ljóst á fimmtudaginn í síðustu viku að vonlaust verk væri að halda þeim gangandi og því var ákveðið að klára frekar verkið. Frá þeim tíma má þá ætla að skólp hafi runnið óhreinsað í sjóinn. 

700 lítrar á sekúndu

Ólöf segir ekki vitað hve mikið óhreinsað skólp hafi farið í sjóinn á framkvæmdatímanum, það sé mismikið, en 700 lítrar á sekúndu sé það sem fari í eðlilegu árferði í gegnum stöðina og má því búast við að það magn renni nú í sjóinn. 

700 lítrar á sekúndu eru 2.520.000 lítrar á klukkustund, en það er um það bil sama magn og í innilauginni í Laugardagslaug en hún tekur 2.500.000 lítra. Má því gera ráð fyrir að nú renni um það bil ein Laugardalslaug af óhreinsuðu skólpi í sjóinn á hverri klukkustund og 24 laugar á sólarhring.

Ólöf bendir á að í tilvikum sem þessum þegar stöðva þurfi starfsemi þá verði að opna neyðarloka sem hleypa skólpi beint í sjóinn frá stöðinni. Aftur a móti þegar of mikið safnast í stöðina, til dæmis í mikilli rigningu, þá fari stöðvarnar á yfirfall og umframgeta þeirra er send nokkur hundruð metra út á sjó.

Ylströndin hafi verið upplýst

Ólíkt því sem kom fram í frétt RÚV segir Ólöf að skilti hafi verið sett upp til að vara fólk við en að þau hafi kannski ekki verið rétt staðsett og verið sé að bæta úr því. Þá segir hún ylströndina í Nauthólsvík hafa verið upplýsta vel og reglulega og fengið senda sex tölvupósta um rekstrarstöðvunina.

Ólöf bendir á að hagsmunir fráveitunnar og sjósundsfólks fari saman en eins og með allan búnað þá eldist hann og það þarf að sinna viðhaldi. „Sjósundsfólk gæti ekki stundaði íþrótt sína ef að fráveitan væri ekki starfandi. En svo koma einverjir dagar á ári þegar það er kannski ekki ráðlagt að fara sjóinn.“

Upp í kerfin eða út í sjó

Ólöf bendir á að fráveitukerfið sé þannig uppbyggt að það séu tvær leiðir í tilfellum sem þessu, annað hvort sé skólpinu hleypt í sjóinn eða þá það fari upp í kerfunum, í gegnum niðurföll eða heima hjá fólki.

Sjórinn aftur á móti hreinsi hratt lífrænu efnin og örverur deyi innan nokkurra klukkustunda. „En það sem er kannski hvimleitt er ruslið í fjörunni en við erum líka með fólk sem vaktar fjörurnar og hreinsar þær.“

Veitur hafa biðlað til fólks að henda ekki rusli í klósett. Það sé einungis líkamlegur úrgangur og salernispappír sem eigi erindi þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert