Hiti gæti náð 20 stigum á Austfjörðum á laugardaginn. Þó verður hvasst þar eins og annars staðar á landinu og „ekki svona blíðviðri“ að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Í gær náði hiti 20 gráðum á Seyðisfirði og í Neskaupstað en heldur kaldara er þar í dag.
„Það er búið að vera tiltölulega hlýtt loft yfir landinu, við getum sagt að þetta sé óvenjulega hlýtt en þetta sést samt reglulega,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Í dag verður ekki eins hlýtt, heitast á Egilsstöðum, allt að 14 stiga hiti seinni partinn. Í morgun hefur verið rigning á Norðaustur- og Austurlandi en styttir upp að mestu upp úr hádegi, skúrir í öðrum landshlutum, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.
Á föstudag verður hiti á bilinu 6 til 12 stig, suðvestan 8-15 m/s norðvestanlands annars hægari vindur.
Birgir segir að á laugardaginn verði hvasst á öllu landinu en það gæti aftur orðið hlýtt á Austfjörðum.
Hitinn gæti þar slagað upp í 20 gráður „en þetta verður samt ekki svona blíðviðri, það verður hvasst líka,“ segir Birgir Örn.
Á vesturhluta landsins „verður suðaustan hvassvirði og rigning, svona heiðarlegt leiðindaveður,“ segir Birgir og bætir við að þetta sé ekki haustlægð að því leyti að það er hiti í henni.
Á sunnudag mun þá aftur kólna, hiti 2 til 8 stig.