Kristinn Jónsson, prentari og fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur, lést á Landspítalanum á mánudaginn, 81 árs að aldri. Kristinn fæddist 22. nóvember 1940 í Reykjavík, foreldrar hans voru Jón Jóhannes Veturliðason matreiðslumaður og María Bóthildur Jakobína Eyjólfsdóttir.
Kristinn hóf nám í Félagsprentsmiðjunni 1957 og lauk sveinsprófi 1961. Hann starfaði í Félagsprentsmiðjunni til 1966, en flutti sig þá til Plastprents. Árið 1970 stofnaði Kristinn eigið fyrirtæki, Formprent, og stýrði því allar götur síðan.
Kristinn lék knattspyrnu með meistaraflokki KR á gullaldarárum félagsins og hóf meistaraflokksferil sinn sumarið 1959. Hann lék 81 leik fyrir félagið og varð Íslandsmeistari með KR 1965 og bikarmeistari 1962, 1964, 1966 og 1967.
Kristinn sinnti félaginu af alúð alla tíð. Hann var formaður knattspyrnudeildar KR árin 1976-1980. Árið 1991 varð hann formaður félagsins og gegndi því starfi allt til ársins 2003. Kristinn var sæmdur gullstjörnu KR 1999 og var síðar gerður að heiðursfélaga. Kristinn vann einnig ómetanlegt starf fyrir íslenska knattspyrnuhreyfingu og hlaut hann silfurmerki KSÍ árið 1987 og gullmerki þess árið 1992.
Kristinn var ætíð mikill sjálfstæðismaður og sinnti ýmsum störfum innan flokksins.
Eiginkona Kristins er Björk Aðalsteinsdóttir. Börn þeirra eru Jón Aðalsteinn, Guðný Hildur, Hilmar Þór og Arna Björk. Barnabörn þeirra eru átta talsins og barnabarnabörn fimm.