Deyfði sig með kókaíni á Havaí

Guðmundar- og Geirfinnsmálið hefur litað allt líf Erlu Bolladóttur.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið hefur litað allt líf Erlu Bolladóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sakfelling Erlu Bolladóttur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefur litað allt hennar líf og samband hennar við elstu dóttur sína, sem var ellefu vikna þegar hún var handtekin, hefur liðið fyrir það alla tíð. Þær náðu aldrei að mynda eðlileg tengsl á milli móður og barns.

Erla var sakfelld fyrir að bera rangar sakargiftir á hendur Magnúsi Leópolds­syni, Ein­ari Gunn­ari Bolla­syni, Valdi­mar Ol­sen og Sig­ur­birni Ei­ríks­syni og hafnaði endurupptökudómstóll í síðustu viku henni um endurupptöku málsins.

Dóttir Erlu var orðin tveggja ára þegar hún fékk hana aftur til sín eftir að hafa barist fyrir henni með kjafti og klóm. Hún var nefnilega ekki talin hæf til að annast hana eftir langa dvöl í gæsluvarðhaldi. Þetta kom fram í máli Erlu á blaðamannafundi sem hún boðaði til í dag vegna niðurstöðu endurupptökudómstólsins.

Hrækt á hana á förnum vegi

Erla sagði mikla heift og fyrirlitningu almennings hafa tekið á móti sér þegar hún var látin laus og lýsti hún því á fundinum hve mikið áfall það var henni að heyra nafn sitt kallað þegar það var í fyrirsögn í blöðunum.

Sagði hún fólk hafa úthúðað sér og hrækt á sig og alls staðar hafi hún fengið að heyra að fólk eins og hún væri ekki velkomið. Hún reyndi að fara varlega þegar hún var meðal almennings. Fólk sem hún þekkti treysti sér ekki til að umgangast hana. Hún sagðist ekki hafa átt möguleika á því að fá húsnæði eða vinnu og var neitað um félagsbætur á þeim forsendum að fólk eins og hún fengi ekki styrk.

Eiturlyf besta uppfinningin

Þetta varð til þess að hún flúði Ísland. Henni var ekki stætt á að búa hér á landi og fór til systur sinnar sem bjó á Havaí. Þær fóru saman, hún og dóttir hennar. „Þar vissi enginn neitt um Geirfinn,“ segir Erla.

Lífið á Havaí var hins vegar ekki auðvelt þó hún væri laus undan fyrirlitningunni og aðkastinu sem hún varð fyrir heima á Íslandi. Erla var uppfull af reiði og leitaði í fíkniefni til að deyfa sig.

„Eiturlyf voru það besta sem hafði verið fundið upp í þessari líðan minni. Svo fór kókaínið alveg með mig alla leið,“ segir Erla í samtali við mbl.is. Henni tókst þó að losa sig úr viðjum vímunnar og snúa blaðinu við. Hún gekk í tólf spora samtökin á Havaí og fór inn á andlega braut í kjölfarið.

„Það gerði mig smám saman færa um að koma heim,“ segir hún.

Erla Bolladóttir boðaði til blaðamannafundar í dag ásamt Sigrúnu Gísladóttur, …
Erla Bolladóttir boðaði til blaðamannafundar í dag ásamt Sigrúnu Gísladóttur, lögfræðingi sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Losnaði við reiðina og fyrirgaf

Erla er þó ekki reið í dag. Ekki lengur.

„Ég var það, ég þreifst á því. Hatrið var mér kraftur. Ég hataði þessa menn, en þegar ég kom aftur til Íslands þá fór ég aðeins að skoða þetta betur og fór inn á andlega braut. Þá fór ég að átta mig á ýmsu sem hafði íþyngt mér og ég gat losað mig við. Ég eyddi líka fimm árum í Suður-Afríku þegar Nelson Mandela var að taka við völdum og þá lagðist ég í djúpa rannsókn á fyrirgefningu, þangað til ég var búin að átta mig á hvað það þýddi. Þá gat ég fyrirgefið og sleppt tökunum á þessu öllu.“

Í dag segist hún finna til með með mönnum sem komu að rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins á sínum tíma. „Ég hef engan áhuga á að draga fram einhverjar refsipælingar. Aðalmálið er heldur ekki að ég verði sýknuð heldur að þessu máli sé skilað til stjórnvalda því þau bera ábyrgð.“

Hafði virkilega trú á dómstólnum

Erlu var brugðið þegar niðurstaða endurupptökudómstólsins lá fyrir. „Þá áttaði ég mig á því að ég hafði haft einhverja trú á þessum dómstóli. Af því málið var svo borðleggjandi og það var svo augljóst að hvaða annað mál sem er hefði unnið,“ segir Erla.

Hún telur að þeir einstaklingar sem kváðu upp dóminn, sem og þeir sem hafa sakfellt hana áður, hafi ekki verið heiðarlegir. „Það þarf einbeittan vilja til þess að komast að þessari niðurstöðu.“

Erla er þó ekki hætt að berjast og ætlar að halda áfram á meðan það er einhver leið fær. Nú kemur til greina að fara með mál hennar til Mannréttindadómstóls Evrópu og næsta skref er að kanna hvort öll skilyrði til þess séu uppfyllt.

„Það er ákveðinn léttir, tilhugsunin um að fara með þetta út fyrir Ísland. Það er eiginlega eini sénsinn. Þar sem einhver er ekki að passa frænda sinn.“

Ætlar að berjast út fyrir gröf og dauða 

Ef það fer svo að málið verði tekið fyrir hjá Mannréttindadómstólnum og dæmt henni í vil, þarf hún að sækja um endurupptöku málsins hér á landi. „Þá slæ ég örugglega öll met. Það er enginn sem hefur fengið að sækja þrisvar um endurupptöku í sama máli,“ segir Erla kímin.

Þetta ferli getur tekið langan tíma og Erla gerir sér grein fyrir hún muni hugsanlega ekki lifa þann dag að hún fái mál sitt endurupptekið. Hún hefur greinst með ólæknandi krabbamein og því ekki sjálfgefið að hugsa til framtíðar.

„Ég tel það vel mögulegt, en þá er það fólk eins og þín kynslóð sem vonandi brettið upp ermarnar. Ég er með ákveðið fólk í huga sem getur tekið við því ríkið fær ekki að sleppa. „Ég mun berjast út fyrir gröf og dauða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert