Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtóku í dag fjóra einstaklinga. Segir lögreglan að þar með hafi hættuástandi verið afstýrt. Tveir þeirra sem voru handteknir voru taldir vopnaðir og hættulegir umhverfi sínu.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst frá ríkislögreglustjóra rétt í þessu.
Mennirnir eru sagðir hafa verið handteknir í tengslum við yfirstandandi rannsókn á vegum embættis ríkislögreglustjóra, sem hafi það hlutverk að rannsaka öll þau brot sem snúa að landráðum og brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.
Ekki er greint nánar frá því að hvaða leyti málið falli undir þetta hlutverk embættisins.
Í tilkynningunni kemur aftur á móti fram að rannsóknin hafi snúið að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum.
„Það er mildi að engan sakaði í aðgerðum lögreglu en handtaka fór skjótt og vel fram,“ segir í tilkynningunni.
Gunnar H. Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, tekur fram í tilkynningunni að handtakan hafi farið skjótt og vel fram. Þá er bætt við að vettvangur aðgerða hefur verið tryggður, hættuástandi afstýrt og viðbúnaður lögreglu hafi verið umfangsmikill.
Þá liggur fyrir að aðgerðirnar í Holtasmára í Kópabogi og í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ hafi verið tengdar og hluti af þessari rannsókn ríkislögreglustjóra.