Liðlega tvö kíló af amfetamíni og kókaíni fundust falin í ferðatöskum mæðgina er komu til Seyðisfjarðar með Norrænu að morgni þriðjudagsins 13. september, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Kemur fram að móðirin sé á fertugsaldri en sonur hennar á sextánda aldursári. Þá voru þau bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald til næsta föstudags, 23. september.
Sökum aldurs er sonurinn vistaður á stofnun fyrir ungmenni en gistir ekki fangageymslur meðan gæsluvarðhald varir.
„Rannsókn málsins, sem unnið var að í samstarfi lögreglu og tollgæslu, miðar vel. Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.