Hætt við flugið og styður baráttuna í Íran

Lenya hefur ákveðið að vera um kyrrt í Kúrdistan og …
Lenya hefur ákveðið að vera um kyrrt í Kúrdistan og leggja kvenréttindabaráttu þar lið. Samsett mynd

Íranar heyja nú sögulega mannréttindabaráttu í kjölfar morðs lögreglu á ungri konu, sem neitaði að bera höfuðslæðu. Hefur Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, því ákveðið að vera um kyrrt í Kúrdistan. Þar hefur hún dvalið undanfarna daga með fjölskyldu og vinum. 

„Stúlkan sem var myrt er Kúrdi og íranskir Kúrdar áttu upptökin að þessum mótmælum eftir morðið á henni,“ segir Lenya í samtali við mbl.is. Átti hún flug til Íslands í morgun en ákvað að vera um kyrrt í ljósi atburðanna.

Lenya og Dr. Rewas, forseti kúrdíska þingsins.
Lenya og Dr. Rewas, forseti kúrdíska þingsins. Ljósmynd/Aðsend

Heyrir frá kunningjum sem hafa misst netsamband

„Barátta fyrir mannréttindum á einum stað er barátta fyrir mannréttindum alls staðar,“ segir hún. 

Hefur hún fengið gríðarmörg skilaboð frá Kúrdum í Íran sem lýsa hræðilegu ástandi og kalla eftir því að þau sem geti aðstoðað geri slíkt.

„Netið hefur verið tekið af bæjum og borgum þar sem mótmælin eru hvað mest og hátt í annað hundrað mótmælendur hafa verið drepnir af yfirvöldum.

Mér finnst ég bera skyldu til þess að vekja máls á því sem verið er að gera þessu fólki. Kúrdar eru líka mitt fólk og þeir þurfa aðstoð,“ segir Lenya, sem er fædd á Íslandi en á rætur að rekja til Kúrdistan. Báðir foreldrar Lenyu eru frá íraska hluta Kúrdistans og bjó hún í landsinu á árunum 2013 til 2016. 

„Eigum að taka harða afstöðu gegn mannréttindabrotum“

Mótmæli hafa geisað víða um í Íran eftir að Masha Amimi, 22 ára gömul kúrdísk kona, var myrt af lögreglu eftir brot hennar á ströngum reglum Írana um notkun höfuðslæðu.

„Það sem írönsk stjórnvöld er að gera hefur gríðarlega íþyngjandi áhrif á landsmenn, konur mest af öllum. Við eigum öll að taka harða afstöðu gegn mannréttindabrotum, sama hvar þau eiga sér stað, og nú þegar ég er svona nálægt þessum atburðum, þá kom ekki annað til greina en að leggja mín lóð á vogarskálarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert