Nóttin var með mestu róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ef marka má dagbók hennar frá því í nótt.
Þó var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í Grafarvogi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Innbrotsþjófurinn reyndist vera húsráðandi sem læstur var úti, að reyna að komast inn í eigið hús.
Alls voru 28 mál bókuð hjá lögregluumdæminu í nótt.
Í miðbænum var ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og tilkynnt um húsbrot, mann í annarlegu ástandi í verslun og hávaða.
Í Kópavogi var ökumaður bifreiðar stöðvaður vegna gruns um réttindaleysi og í Breiðholti var sofandi maður í stigagangi vakinn og gert að ganga sína leið.