Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í dag með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í þinghúsinu á Capitol Hill í Washingtonborg. Frá þessu segir í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
Ræddu þær um tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna og kom fram að ríkin eiga náið og traust samstarf sem bæði hafi dýpkað og breikkað á síðustu árum, en samstarf á sviði umhverfis- og loftlagsmála og Norðurslóða séu dæmi um það.
Þá ræddu þær málefni Úkraínu, loftlagsmál, réttlát umskipti og það bakslag sem hefur orðið í jafnréttismálum víða um heim.
Í kjölfarið átti forsætisráðherra fund með Angus King og Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmönnum Maine og Alaska. Ræddu þau meðal annars frumvarp þingmannanna um Norðurslóðir.