Að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, fyrsta varaformanns Velferðarnefndar Alþingis og þingmanns Samfylkingarinnar, þarf að vinna að því að heilbrigðisstarfsfólk fái upplýsingar ef að skortur á ákveðnum lyfjum er fyrirsjáanlegur og að þá væri hægt að notast við samheitalyf eða gera aðrar ráðstafanir.
„Það er vandamál að læknar hafa ekki fengið þessar upplýsingar og hafa verið að skrifa upp á lyf sem eru ekki til,“ segir Oddný.
Velferðarnefnd Alþingis ræddi í dag á fundi sínum um skort á lífsnauðsynlegum lyfjum fyrir börn og hvernig bregðast megi við honum.
Tilefnið var fréttaflutningur í júní en þá ræddi Rúv við Ragnar Bjarnason, yfirlækni á barnaspítala Hringsins, sem sagði að ítrekað hefði orðið skortur á lyfjunum undanfarin ár og að enginn „mekanismi“ væri til sem tilkynni meðhöndlandi lækni að skorturinn væri yfirvofandi.
Oddný segir beiðnina um að taka málið fyrir hafa komið í júní og að málið hafi klárast hjá nefndinni í dag.
„Við vorum að ræða um kerfið og hvernig þyrfti að bregðast við og um tilkynningar ef að fyrirsjáanlegur er skortur á lyfjum,“ segir Oddný.
Hún bendir á að Íslendingar þyrftu að vera í sameiginlegu kerfi með hinum norrænu ríkjunum. Sökum þess hversu fámenn við erum eru einungis 3.000 skráð númer fyrir lyf á Íslandi en í Noregi og Svíþjóð séu þau hins vegar 14.000 og því þurfi hér stundum að skrifa upp á undanþágulyf.
Aðspurð segir Oddný að bæði hagsmunaaðilar og Lyfjastofnun segi það ekki algengt að skortur sé á lífsnauðsynlegum lyfjum fyrir börn á Íslandi en að Ragnar hafi aftur á á móti sagt þetta vera vandamál.